UNIFEM sameinast þremur systurstofnunum innan Sameinuðu þjóðanna

Í ársbyrjun sameinaðist UNIFEM  þremur systurstofnunum innan Sameinuðu þjóðanna. Þessi nýja stofnun hefur hlotið nafnið UN Women eða UN Entity for Gender Equality and the Empowerment of Women og tekur stofnunin formlega til  starfa á alþjóðavísu 24. febrúar næstkomandi.

Til þess að fagna þessum tímamótaviðburði hefur UN Women á Íslandi fengið listakonuna Kitty Von-Sometime og gjörningahópinn WEIRD GIRLS PROJECT til liðs við sig. Til stendur að afhjúpa listrænt verk eftir Kitty Von-Sometime á áberandi stað í miðbæ Reykjavíkur. Mikil leynd hvílir yfir verkinu - svo mikil að ekki er einu sinni vitað hvað listakonan hefur í bígerð.

Íslenska landsnefndin mun fagna þessum sögulega viðburði á alþjóðlegum degi kvenna og hvetur konur til að mæta  klukkan 17.15, þriðjudaginn 8. mars.

Í tilefni af þessum sögulega viðburði og í ljósi þess að jafnréttismál eru ekki einkamál kvenna, skorum við á ykkur að bjóða með ykkur gestum og sérstaklega karlmönnum til að fagna með okkur.  Aukið jafnrétti er jú
allra hagur! Nákvæm staðsetning verður gefin upp þegar nær dregur.