Vel heppnuð ráðstefna

Áhugasamir þátttakendur
Áhugasamir þátttakendur
Þær Iotasystur stóðu fyrir ráðstefnunni „Á flekamótum“ í lok október. Ráðstefnan var vel heppnuð og við gefum þeim Iotasystrum orðið:

Eitt af markmiðum DKG er að hafa áhrif á menntamál.  Við í IOTA deild höfum oft velt fyrir möguleikum til að hafa áhrif og láta gott af okkur leiða í menntamálum og þá sérstaklega í okkar litla samfélagi á Vestfjörðum.  Þrjár okkar fóru svo á vorfundinn á Hótel Heklu, umfjöllunarefnin þar voru að okkar mati einmitt það sem við þörfnuðumst að þessu sinni og ákváðum við að reyna að flytja ráðstefnuna í heilu lagi hingað vestur.  Það tók nokkurn tíma og fjöldann allan af tölvupóstum að finna tímasetningu þar sem allir fyrirlesarar ættu heimangengt í þetta verkefni en það hafðist og í lok október endurtók IOTA deild ráðstefnuna ,,Á flekamótum“ í Háskólasetri Vestfjarða.  Þangað komu tæplega 60 manns og vorum við DKG konur hæst ánægðar með þátttökuna. Við höfðum fengið styrktaraðila til að aðstoða okkur við fjármögnun því það kostar sitt að fljúga til Ísafjarðar og við greiddum smáræði fyrir fyrirlestrana en allt gekk þetta upp og líklega verður smá afgangur hjá okkur. Við þökkum þeim Gerði G. Óskarsdóttur, Kolbrúnu Pálsdóttur, Ingibjörgu Elsu Guðmundsdóttur og Guðrúnu Geirsdóttur kærlega fyrir þeirra framlag.  Því miður veiktist Jóhanna Einarsdóttir og við urðum af hennar erindi að þessu sinni en kannski má bæta úr því seinna.

Við vitum að á mörgum stöðum á landsbyggðinni er staðan svipuð og hér hjá okkur, það er flest börnin koma úr sama leikskóla, fara í sama grunnskólann og svo í framhaldsskólann.  Við lítum svo á að ákveðin sóknarfæri felist í því að efla samstarf þessara skólastiga, sérstaklega á stöðum þar sem svona háttar til.  Umræður að loknum fyrirlestrum voru áhugaverðar, þar skiptist fólk á skoðunum um málefni allra skólastiganna og samstarfsmöguleikum og eins og áður er það kannski umræðan sem skiptir meginmáli en ekki endilega niðurstaða hennar.  Lítum við svo á að ráðstefnan hafi verið fyrsta innlegg okkar í að efla samstarf þeirra sem starfa að skólamálum hér á svæðinu.

Myndir frá ráðstefnunni er í myndaalbúminu.