Fréttabréf Etadeildar haustið 2015

September  2015
 
Kæru Etasystur, vonandi komið þið hressar til leiks og starfa eftir sumarið. 
 
Stjórn Etadeildar hefur lagt drög að vetrarstarfinu, með tillögu að fundardögum og hópaskiptingu og leggur til að áfram verði sömu markmið höfð að leiðarljósi. 
  • Að efla persónulegan og faglegan þroska félagskvenna og hvetja þær til virkni
  • Að fræða félagskonur um það sem er efst á baugi í efnahagsmálum, félagsmálum, stjórnmálum og menntamálum og stuðla með því að vaxandi skilningi og virkri þátttöku þeirra í samfélagi þjóðanna
Við viljum gefa hópunum nokkuð frjálsar hendur um val á fundarefni út frá þessum markmiðum en höfum m.a. rætt að áhugavert gæti verið að kynnast forystukonum, konum sem hafa rutt brautina, farið ótroðnar slóðir og náð árangri í lífi og starfi. Við teljum áhugavert að heimsækja vinnustaði og funda þar ef mögulegt og nýta tengslanetið innan DKG svo sem kostur er. 
 
Við í Etadeild höfum á að skipa vel menntuðum og virkum konum, sem margar eru enn að þróa starfsferil sinn auk þess að sinna fjölbreyttum fjölskylduverkefnum, aðrar eru komnar í þau lífsverkefni sem fylgja efri árum. Hvort tveggja gleðiefni og í anda okkar markmiða en kemur kannski óhjákvæmilega niður á fundarsókn. Á síðasta starfsári vorum við fæstar 9 á fundi og flestar 19 sem mættu. Hvað er til ráða til að ná betri mætingu og félagsvirkni? Eða er þetta kannski bara í góðu lagi hjá okkur? Við höfum rætt þetta fram og aftur í stjórninni og erum einhuga í að fagna beri þeim konum sem mæta og fullur skilningur sé á aðstæðum þeirra sem eru fjarverandi hverju sinni. Í ljósi þessa leggjum við áherslu á nýliðun og hvetjum ykkur Etasystur til að koma með tillögur að nýjum félögum með fjölbreytni starfa og aldursbreidd í huga.  Tvær konur gengu til liðs við okkur á s.l. ári og fögnum við þeim, stefnum að því að fleiri bætast í hópinn á þessu starfsári. 
 
Á Landsambandsþingi DKG  (sjá fundargerð dkg.muna.is) var samþykkt tillaga um hækkun félagsgjalda  til landsambands úr 8.000 í 10.000 krónur. Fjárhagur samtakanna hefur staðið í járnum undanfarin ár og óhjákvæmilegt að hækka félagsgjöldin. Hjá því varð því ekki komist að hækka árgjald Etadeildar, sem hefur verið óbreytt nokkur undanfarin, úr 9500 í  11000 krónur. Innheimtu þarf að vera lokið fyrir 31. október og hefur gjaldkeri Etadeildar, Anna Sigríður þegar sent út fyrsta ákall, hafa konur vonandi brugðist vel við því.    
Framkvæmdaráðsfundur (sjá fundargerð á dkg.muna.is) var haldinn í Hafnarfirði 12. september en hann sitja stjórn landsambands, formenn deilda, lögsögumaður og fráfarandi forseti. Nýr landsambandsforseti, Eygló Björnsdóttir úr Betadeild stýrði fundi. Var þetta hinn notalegasti fundur og ánægjulegt að hitta konur úr öðrum deildum. Meðal þess sem kom til umræðu var gildi þess að deildir færu í SVÓT greiningu  (styrkleikar, veikleikar, ógnanir, tækifæri) í upphafi starfsárs, nýttu tengslanet, hefðu sameiginlega fundi, nýttu fésbókarsíðu til að miðla, afla upplýsinga og til fróðleiks. Einnig var lofað ágæti stjörnunámskeiða í umsjá Sigrúnar Jóhannesdóttur, sem nokkrar deildir hafa fengið til sín. Hvort tveggja þess virði að gefa gaum og kanna hvort áhugi er fyrir að nýta í okkar hópi.  Sem fyrr er hvatt til að félagskonur nýti sér styrki sem í boði eru hjá alþjóðasamtökum DKG. Við eigum þar góða möguleika ekki síst þar sem Ísland er stærst aðildarfélaga  innan Evrópu með yfir 300 félaga. Upplýsingar má finna á vefsíðu DKG (http://www.dkg.org), hjá landsambandsforseta og hjá Ingibjörgu Jónasdóttur í Gammadeild. 
 
Í ár eru liðin 40 ár frá stofnun Delta Kappa Gamma á Íslandi og af því tilefni verður efnt til málþings og hátíðarkvöldverðar laugardaginn 7. nóvember. Eru Etakonur hvattar til að taka þátt. Sjá nánar í auglýsingu á heimasíðu (dkg.muna.is). 
 
Stjórn Etadeildar hefur boðað til fyrsta fundar miðvikudaginn 30. september kl. 18:00 – 20:30 á Grand hóteli við Sigtún. Gestur fundarins er Jón Ólafsson prófessor í heimspeki við HÍ og einn stofnenda Gagnsæis, samtaka fólks sem vill berjast gegn spillingu í öllum grunnstoðum samfélagsins. Væntum við þess að ánægjulegt og ekki síður fróðlegt verði að hlýða á erindi hans. 
 
 
 

Síðast uppfært 14. apr 2017