2. fundur 2017

Fundur í Etadeild þriðjudaginn 7. nóvember 2017

kl. 16:00-19:00

CCP Grandagarði 8 / Slippbarinn Mýrargötu 2

 

Dagskrá: Heimsókn til hugbúnaðarfyrirtækisins CCP og fundi fram haldið á Slippbarnum.

Þær sem mættar voru: Auður Elín,  Auður T, Ásta,  Ágústa, Björg, Bryndís G, Bryndís S, Guðrún Hrefna, Hafdís, Magnea, Ragnheiður, Sigríður Heiða, Stefanía.

Fundurinn hófst á kynningu á hugbúnaðarfyritækinu CCP og var það starfsmaður fyrirtækisins Guðmundur Helgason sem sá um það.

Hann fór í megindráttum yfir þróun fyrirtækisins sem stofnað var 1997 en hefur vaxið ótrúlega á þessum 20 árum síðan starfsemi þess hófst. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í London en aðrar starfsstöðvar eru í Reykjavík, Newcastle á Englandi og í Shanghai í Kína.

Þegar  hugbúnaðarfyrirtækið CCP er kynnt er  áherslan á að  það sé eitt af framsæknustu fyrirtækjum í leikjaiðnaði, sem mun skipta máli á þessum vettvangi á næstu árum.  Fyrirtækið hefur unnið til margra verðlauna á undanförnum árum.

Fyrstu 10 árin var aðaláhersla á tölvuleikinn EVE Online eða Hættuspil. Leikurinn gengur út á að berjast um landssvæði til að vinna sér inn auðlindir heimsins, sýndarveruleiki.  Til að gefa okkur innsýn í leikinn og út á hvað hann gengur  sýndi Guðmundur okkur brot úr leiknum sem virkaði á okkur flestar sem sprenguárásir og skotbardagar. Tölvuleikjaheimurinn er nokkuð fjarlægur okkur sem þarna sátum  og hlustuðum en um leið  afar forvitnilegur.

EVE Online er fyrsti leikurinn og er enn í þróun og margir spilahópar stórir og smáir geta spilað leikinn saman og dæmi er um að allt að  60-70 manns geti spilað samtímis í hóp. Dæmi er um að einhverjir hafi spilað leikinn frá upphafi. Meðalaldur þeirra sem spila þessi leiki er í kringum 20 ár. Samkvæmt upplýsingum eru um 97% unglinga sem spila EVE Online, 81% eru á aldrinum 18-29 ára og um 60% spilara eru á aldrinum 30-49 ára.

Í þróun eru nýir leikir sem sækja hugmyndir til goðafræðinnar og hefur CCP fjölmarga teiknara og hugmyndasmiði til að vinna þessa leiki. Þetta eru leikirnir, Gunjack sem verður hægt að spila í símanum og svo Valkyrja sem hægt  er að leika bæði á  Pc og Playstation.

Í lokin fór Guðmundur yfir nokkra leiki sem eru í þróun og þjálfa ýmsa hæfni sem hefur jákvæð áhrif á nám, skynjun, athygli, vitsmunafærni, samhæfingu og t.d. dyslexiu. Vitnaði  hann í að margar rannsóknir sýni fram á mikla styrkingu/örvun meðal þeirra sem nota þessa leiki og taldi upp leiki sem styrkja ýmsa þætti sem nýtast við þjálfun hópa t.d flugmanna, skurðlækna og til að vinna gegn dvínandi vitsmunafærni og elliglöpum.

Margar spurningar vöknuðu og urðu forvitnilegar umræður í lokin sem leiddu m.a. til þess að tímasetning riðlaðist  og kynningunni lauk ekki fyrr en 17:20.

Fundi var svo fram haldið á Slippbarnum þar sem við fengum notalega stofu út af fyrir okkur og gátum spjallað saman og notið góðra veitinga. Bryndís lauk fundi með því að lesa upp úr ljóðabókum Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar orð til umhugsunar. Forvitnilegum og gefandi fundi slitið  kl. 19:00.

Jólafundurinn verður haldinn í heimahúsi 5. desember hjá Björgu Kristjánsdóttur.

Magnea Ingólfsdóttir ritari.

Tölvupóstur sem Guðmundur sendi til Bryndísar eftir fundinn og hún áframsendi á Etadeild.

Greinin sem að ég studdist einna helst við var þessi:

http://www.journalofplay.org/sites/www.journalofplay.org/files/pdf-articles/7-1-article-video-games.pdf

Í henni má finna samantekt af því helsta frá þessu sviði síðustu ár. Einnig notaðist ég við eftirfarandi blog grein sem vitnar í þessar sömu greinar og ég var að tala um í kynningunni.

https://www.psychologytoday.com/blog/freedom-learn/201502/cognitive-benefits-playing-video-games

 

 


Síðast uppfært 12. des 2017