1. fundur

1. fundur Etadeildar haust 2015, haldinn á Grand hóteli, miðvikudaginn 30. september kl. 18:00–20:30
 
Fundarstjóri: Bryndís Guðmundsdóttir
 
Dagskrá:
 
  1. Fundur settur, kveikt á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.
  2. Gestur fundar var Jón Ólafsson prófessor í heimspeki við HÍ og stjórnarmaður í Gagnsæi, samtökum fólks sem vill berjast gegn spillingu í öllum grunnstoðum samfélagsins. Jón fór yfir skilgreiningu á hugtakinu „spilling“, birtingarmyndir spillingar, áhrif og spillingarhvata. Spilling telst vera misbeiting á opinberu valdi til persónulegs ávinnings, misnotkun á trausti og skaðar allt samfélagið. Spilling birtist þar sem eftirlit skortir og ákvarðanataka er óljós.  Birtingarmyndir spillingar eru m.a. misnotkun á trausti, svik, almannahagsmunir sniðgengnir, sérhagsmunahópar ráða ferð og stjórnmálamenn ganga erinda þeirra. Aðstæður sem auka líkur á spillingu eru smæð samfélags, kunningjatengsl, formleysi í stjórnsýslu og samtrygging. Ábendingar eru frá alþjóðlegum samtökum (GRECO, OECD, SÞ) um að hér sé lagfæringa þörf. Takmarkaður áhugi virðist hjá stjórnvöldum að draga úr spillingu. Spilling fer ekki, stöðugt þarf að takast á við hana, vinna þarf á spillingarhvötum, búa til trúverðugt kerfi til lengri tíma. Markmið Gagnsæis er m.a. að fá fólk til að horfa á kerfislæga þætti frekar en það sem varðar einstaklinga, skilja hvað hefur áhrif á hegðun, skilja samspil einstaklinga og kerfa, skapa grundvöll fyrir gagnrýni á lélega samskipta- og viðskiptahætti. Gagnsæi má auka með því að auka eftirlit, rannsaka mál, hafa reglur skýrar, auka vitund um spillingu og spillingarhættur, þjálfa fólk í að þekkja merki um spillingu. Áhugavert innlegg og líflegar umræður í kjölfarið.  
  3. Orð til umhugsunar voru frá Stefaníu Valdísi Stefánsdóttur, sem gaf hópnum  hlutdeild í reynsluheimi menntaskólastúlku fyrir hálfri öld. Hún dró fram lifandi myndir af heimavistarlífi í MA, tísku og tíðaranda, töframætti Presley tónlistar, áhrifum félaganna og ekki síst lýsti hún sterkum áhrifum skólameistara á hug og afstöðu ómótaðrar unglingsstúlku. Einlæg og gefandi minningabrot.
  4. Tilynnt var um 40 ára afmælishátíð DKG á Íslandi, sem boðað er til með málþingi og hátíðarkvöldverði laugardaginn 7. nóvember n.k. Etakonur voru hvattar til að fjölmenna og gleðjast saman af því tilefni. Um aðrar tilkynningar var vísað í fréttapistil formanns sem borist hefur í tölvupósti.  Fundarkonur nutu veitinga og samveru yfir góðu spjalli um deildarstarfið í vetur,  m.a. tilhögun funda, virkni og mætingu á fundi,  mikilvægi þess að kynnast og gefa af sér inn í hópinn og gengu glaðar út í kvöldið að loknum góðum fundi. 11 konur sátu fundinn, 16 konur boðuðu forföll. 
 
Bryndís Guðmundsdóttir ritaði fundargerð.
 
 
 

Síðast uppfært 14. maí 2017