Fundargerðir 2023-2024

Hér má nálgast fundargerðir Etadeildar starfsárið 2023–2024.

Fyrsti fundur

Fundurinn var haldinn 18. október 2023 í sal í Kringlukránni. Stjórn deildarinnar sá um fundinn. Kvöldverður var borinn fram undir umræðum.

  1. Ólöf Helga Þór formaður setti fundinn og kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.
  2. Í upphafi fundar var haft nafnakall en sá siður var tekinn upp til þess m.a. að kynna nýja félaga, en lögð hefur verið áhersla á nýliðun í deildinni.
  3. Bryndís Guðmundsdóttir var með Orð til umhugsunar. Hún minntist Stefaníu Valdísar Stefánsdóttur en hún var einn af stofnfélögum Eta deildar 1997.
  4. Gestur fundarins var Gunnar Sveinn Magnússon, Sjálfbærnistjóri hjá Deloitte sem flutti erindið Hvernig búum við til nýtt sjálfbært hagkerfi. Hann ræddi um að framundan væru krefjandi tímar með aukinni áherslu á orkuskipti, kolefnishlutleysi, hringrásarhagkerfi og náttúruvernd, en jafnframt þyrfti að huga að auknu jafnrétti, mannréttindum og gagn-sæjum stjórnarháttum í virðiskeðjunni svo eitthvað sé nefnt. Þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir vegan loftlagsbreytinga og annarrar áhættu tengdri sjálfbærni kalli á stórhuga aðgerðir.

Mjög góður rómur var gerður að erindi Gunnars og líflegar umræður spunnust út frá því.   

Eftir umræðurnar var fundi slitið.    

Annar fundur.

Fundurinn var haldinn 5. desember 2023 í Skagaseli 7 á heimili Sophie- Kofoed Hansen, kl. 18:00-21:00. 24 konur mættu á fundinn en dagskrá var hefðbundin jóladagskrá.

  1. Ólöf Helga Þór setti fundinn og kveikti á kertunum þremur.
  2. Bryndís Guðmundsdóttir stjórnaði fundi.
  3. Anna Sigríður Pétursdóttir var með Orð til umhugsunar og tók hún fyrir jólahald frá æskuheimilinu og miðaði við aldur sinn þegar hún var 7 ára og hvernig móðir hennar sá fyrir öllu smáu sem stóru. Hvenær svaf mamma spurði hún. Þetta voru ljúfar minningar sem hún bar svo saman við jólin sín 60 árum seinna og móðir hennar 88 ára gömul dáðist að hvað allt væri fínt og fallegt hjá Önnu Siggu. Hvernig ferðu að þessu öllu sagði gamla konan, þú sem hefur svo mikið að gera. Ljúfar minningar sem hægt var að ylja sér við og hugsa til eigin æskujóla.
  4. Næst á dagskrá var upplestur úr bók. Ragnheiður Gestsdóttir rithöfundur, las úr bók sinni  Steinninn, sem kom út í vor. Ragnheiður er barnabókahöfundur en hefur á seinni árum skrifað nokkrar frábærar bækur sem eru ætlaðar fullorðnum. Að lestri hennar loknum spunnust skemmtilegar umræður bæði um skólamál og málefni þeirra sem komnir eru á eftirlaunaaldur, en söguhetjan í bókinni er sjötíu ára gömul kona sem er að halda upp á afmæli sitt.
  5. Að loknum upplestri Ragnheiðar var boðið upp á smásnittur, freyðivín og smákökur og hófust þá umræður kvenna á milli. Myndaðist ljúf og jólaleg stemming og inn á milli voru sungin jólalög.
  6. Í Eta deild eru nokkrir talmeinafræðingar sem komu að gerð málörvunar-bókar, Orð og ævintýri sem gefin er út af Menntastofnun. Öll leikskóla- börn tveggja, þriggja og fjögurra ára fá þessa bók gefins. Þær sögðu okkur lítillega frá þessari frábæru bók.
  7. Fundinum lauk um kl. 9 og fóru allir saddir og glaðir af bæ.

Þriðji fundur

Fundurinn var haldinn 22.1.2024 í Kringlukránni kl. 18:00-21:00. Kaffi og sætur biti var í boði undir umræðum. 21 félagskona mætti á fundinn og fjórar nýjar félagskonur. Gestur fundarins var Árný Elíasdóttir forseti DKG á Íslandi.

  1. Ólöf Helga Þór, formaður. setti fundinn og kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.
  2. Hafdís Sigurgeirsdóttir, gjaldkeri, stjórnaði fundi
  3. Fyrst á dagskrá flutti Árný Elíasdóttir mjög fróðlegt erindi um DKG. Hún sagði m.a.frá niðurstöðum könnunar á viðhorfum félagskvenna til starfa DKG á Íslandi. Fram hafi komið almenn ánægja t.d. með fræðslu á fundum, samheldni, vináttu og að þau væru valdeflandi. Það sem betur mætti fara væri meiri þátttaka, samtökin væru sýnilegri í íslensku samfélagi og að samtökin létu sig menntamál meiri varða. Góður rómur var gerður af erindi Árnýjar og líflegar umræður urðu á meðal félagskvenna um þau atriði sem fram komu hjá Árnýju.
  4. Næst á dagskrá stjórnuðu Ólöf Helga Þór, Sigríður Heiða og Jóhanna hátíðlegri inntökuathöfn fjögurra nýrra félagskvenna. Þær eru Björk Jónsdóttir (sérkennari, skólstjóri Brúaskóla), Oksana Shabatura (kennaramenntuð frá Úkraínu, starfar í dag hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur), Ragnheiður Kristín Sigurðardóttir (var kennari við Fellaskóla og Öskjuhliðarskóla/Klettaskóla), Þóra Sæunn Úlfsdóttir (kennari og talmeinafræðingur, starfar í dag í teymi hjá Miðju máls og læsis innan Skóla og frístundasviðs Reykjavíkurborgar).
  5. Síðasti liður fundarins var umræða um bækur gefnar út 2023. Rætt var í smærri hópum um bók að eigin vali. Konur komu með og/eða gerðu grein fyrir einni bók sem var þeim hugleikin og voru íslenskar bækur í forgrunni. Umræður urðu mjög áhugaverðar og líflegar. Jafnframt gæddu konur sér á gómsætum fiskrétti.
  6.  Eftir umræðurnar var fundi slitið um kl. 21:00 og félagskonur gengu út í kvöldið með hugmyndir um áhugaverðar bækur til að lesa.

Fjórði fundur

Fundurinn var haldinn 13.3.2024. Í Hannesarholti kl.18:00-20:30. Eftir samtal um efni Orð til umhugsunar var borinn fram kvöldverður.

  1. Ólöf Helga Þór, formaður, setti fundinn og kveikti á kertum vinátt, trúmennsku og hjálp
  2. Eyrún Ísfold Gísladóttir stjórnaði fundi.
  3. Ólöf Helga Þór sagði frá því að Sigríður Heiða Bragadóttir, varaformaður, væri búin að taka við formennsku nefndar innan DKG sem ber heitið Félaga- og útbreiðslunefnd. Sigríður Heiða sagði í kjölfarið nokkur orð um fjölgun kvenna í deildinni. Ólöf Helga viðraði þá hugmynd að deildarkonur fjölmenntu á vorþingið í Borgarnesi 20. apríl n.k.  
  4. Orð til umhugsunar voru flutt af Auði Torfadóttur. Hún deildi með okkur þeim miklu áskorunum sem felast í flutningi úr stærra rými í minna eftir 40 ára búsetu. Þær felist ekki síst í að velja það sem þú tekur með þér á nýja staðinn. Auður sagði frá merkri sögu píanósins sem var á heimilinu og var orðið gamalt og lúið. Hún rakti ferðir þess á milli staða á Íslandi og mismunandi hlutverk. Hún nefndi í lokin ósk um að þeim einstaklingum sem væru um þessar mundir að koma til Íslands til að setjast hér að, tækist að aðlagast nýju umhverfi sem best.
  5. Kvöldverður: Í boði var ljúffengur þorskur og meðlæti að hætti Hannesarholts og á eftir var borið fram kaffi og dásemdar Sörur sem bráðnuðu í munni.
  6. Bókakynning: Lilja Magnúsdóttir kynnti bók sína Friðarsafnið sem fjallar um ungan mann á flótta, Frank. Inn í söguna fléttist stafrænt ofbeldi. Í umræðum í kjölfar kynningarinnar kom fram tenging við ástandið í dag m.a. mikilvægi þess að fara ekki í skotgrafirnar. Pólar í íslensku samfélagi séu að verða hættulegir. Lilja greindi auk þess stuttlega frá bók sinni Gaddavír og gotterí. Í henni eru stuttar sögur af  lífi barna í sveit á Íslandi fyrir nokkrum áratugum.
  7. Fundi var slitið kl. 20:30.

Aðalfundur Eta deildar

Fundurinn var haldinn 15.5.2024 og fór fram í Kaffi Flóru í Grasagarðinum.

  1. Ólöf Helga Þór, formaður, setti fundinn og kveikti á kertum.
  2. Skýrsla gjaldkera: Hafdís Sigurgeirsdóttir, gjaldkeri, kynnti fjárhagsyfirlit Eta deildar, Delta Kappa Gamma,1.7.2022 til 30.4.2024. Fram kom að ársreikninga verður ekki hægt að endurskoða fyrr en fjárhagsári lýkur 30. júní 2024. Aðalfundurinn samþykkti að endurskoðaðir reikningar deildarinnar fyrir tímabilið 1. júlí 2022 til 30. júní 2024 verði lagðir fram til afgreiðslu á fyrsta almenna félagsfundi í haust.
  3. Borin var fram gómsæt súpa.
  4. Önnur mál: Rætt var um félagsgjaldið og hvernig það skiptist. Ákveðið var að hækka árgjaldið um 1000 kr. Gjaldkera var falið að taka saman kostnað fyrir hvort ár fyrir sig og gera fjárhagsáætlun. Rætt var um fjölda funda og ákveðið að hafa 3 fundi fyrir áramót og 3 fundi eftir áramót. Stjórnin mun skipta félagsmönnum í hópa sem sjá um hvern fund.
  5. Núverandi stjórn mun sitja áfram næsta tímabil. Eftifarandi Eta systur eru í stjórn:
  6. Ólöf Helga Þór, formaður 

Sigríður Heiða Bragadóttir, varaformaður

Hafdís Sigurgeirsdóttir, gjaldkeri

Jóhanna Thelma Einarsdóttir, vefstjóri

Ásta Lárusdóttir, gjaldkeri         

Fundi slitið                                                                                                                                                                                        

                                                                

 


Síðast uppfært 05. sep 2024