4. fundur

4. fundur ETA-deildar Delta Kappa Gamma, starfsárið 2014–2015 var haldinn í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, setustofu kennara frá kl. 18:30–20:30. 
 
Fundurinn var skipulagður af hópi 3 en í honum voru Björg Kristjánsdóttir, Eyrún Ísfold Gísladóttir, Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir, Kristín Á. Ólafsdóttir og Margrét Friðriksdóttir.
 
Í boði var dýrindis kjúklingaréttur sem matreiðslumeistari mötuneytis skólans reiddi fram. 
 
Bryndís Guðmundsdóttir, formaður deildarinnar, setti fundinn, Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir stýrði honum og Kristín Á. Ólafsdóttir skrifaði fundargerð. 
 
Eftir setningu og nafnakall flutti Margrét Friðriksdóttir orð til umhugsunar. Hún gerði að umtalsefni ljóðabókina Velúr eftir Þórdísi Gísladóttur, sem út kom á síðasta ári, og las úr henni. Þar er að finna ljóð og örsögur um konur.
 
Aðalgestur fundarins var Auður Styrkársdóttir forstöðukona Kvennasögusafns Íslands. Hún flutti erindi undir heitinu: 100 ára kosningaréttur kvenna á Íslandi. Fyrst sagði hún svolítið frá Kvennasögusafninu sem Anna Sigurðardóttir stofnaði árið 1975. Stofnun þess var fyrsta aðgerð kvennaárs Sameinuðu þjóðanna hér á landi. Auður miðlaði fróðleik um aðdraganda þess að konur fengu kosningarétt hér á landi árið 1915, þ.e.a.s 52% kvenna sem þá voru á kosningaaldri. Einnig fræddi hún um þróunina næstu árin þar á eftir og skýrði frá stöðu mála hjá nokkrum nágrannaþjóðum okkar í þessum efnum fyrir u.þ.b. einni öld. Auður mælti með ævisögu Margrétar Benediktsdóttur ef konur vilja kynna sér kvennabaráttu um 1900. Margrét þessi var einn þeirra Íslendinga sem fluttu til Vesturheims undir lok 19. aldar og var baráttukona fyrir réttindum kvenna. Að lokum skýrði Auður frá atburðum yfirstandandi árs í tilefni aldarafmælis kosningaréttar kvenna á Íslandi. Nokkrar umræður urðu að loknu erindinu. Margskonar fróðleik er að finna á vef Kvennasögusafns Íslands: kvennasogusafn.is
 
Eftir mat og kaffi með konfekti var komið að næsta lið:
Nýr félagi tekinn inn í deildina: Auður Elín Ögmundsdóttir. 
Bryndís formaður deildarinnar, Auður Torfadóttir og Stefanía Stefánsdóttir stjórnuðu innvígslunni. Auður Elín var boðin velkomin með lófataki. 
 
Formaður, Bryndís Guðmundsdóttir, greindi frá því að Ragnhildur Konráðsdóttir hefði áhuga á því að koma inn í deildina. Síðan fór hún yfir tilkynningar frá yfirstjórn, meðal annars um styrki og tilnefningar til verðlauna, og minnti á landssambandsþing og einnig Evrópuþing sem haldið verður í ágúst. Benti konum á að afla sér upplýsinga og frétta á heimasíðu samtakanna.
 
Í lokin afhenti fundarstjóri Auði Styrkársdóttur þakklætisvott samtakanna, rósina rauðu, og sleit fundi.
 
Fleira ekki gert
Kristín Á. Ólafsdóttir, ritari fundarins.    
 
 
Dagskrá fundar:
Fundur settur.
Orð til umhugsunar: Margrét Friðriksdóttir skólameistari MK. 
Gestur fundarins Auður Styrkársdóttir forstöðukona Kvennasögusafns Íslands flytur erindi: 100 ára kosningaréttur kvenna á Íslandi.
Inntaka félaga.
Önnur mál.
 
 
 

Síðast uppfært 14. maí 2017