2. fundur
Fundurinn haldinn 6. nóvember 2018 á Lækjarbrekku
Dagskrá:
1. Formaður setur fundinn
2. Orð til umhugsunar – Ólöf Helga Þór
3. Gunnar Þór Bjarnason svarar spurningum um sögu fullveldisins
4. Matarhlé - Sjávarréttarsúpa eða fiskur dagsins
5. Fundi slitið
Mættar: 22 konur mættu á fundinn.
Fundurinn hófst með því að Gunnar Þór Bjarnason, sagnfræðingur gekk með okkur um miðbæinn og sagði frá atburðum sem gerðust á fullveldisárinu 1918 og lýsti aðstæðum í Reykjavík á þessum tíma á lifandi hátt þannig að auðvelt reyndist að lifa sig inn í tíðarandann. Gangan tók um 40 mínútur. Þegar við komum til baka á Lækjarbrekku hófst hinn eiginlegi fundur.
1. Björg, formaður, setti fundinn og flutti okkur fréttir af framkvæmdaráðsfundi sem haldinn var 8. september 2018. Helstu áherslumál þess fundar voru eftirfarandi:
- að hvetja deildir til að bjóða nýjum konum inngöngu þannig að fjöldi virkra félaga haldist í það minnsta milli 20 - 30 í hverri deild.
- að gæta þess að fundargerðir komi á vefinn eins fljótt og hægt er.
- að hvetja allar deildir til að taka að sér verkefni í tengslum við undirbúning Evrópuráðstefnunnar sem verður haldin á Íslandi 25. til 27. júlí 2019.
- að landssambandsþing verður haldið laugardaginn 4. maí 2019 í Reykjavík en ALFA og Cappa deildir ætla að sjá saman um umgjörð þingsins.
Björg fól svo Guðbjörgu Vilhjálmsdóttur að stjórna fundi.
2. Orð til umhugsunar flutti Ólöf Helga Þór. Hún byrjaði á að segja frá að hún hefði verið að lesa bók sem heitir “Bókin um gleðina” þar sem Dalai Lama og Desmond Tutu ræða um hvernig hægt er að finna gleðina í heiminum þegar þjáning er svona mikil. Þema fundarins var fullveldið 1918 og því tengdi hún umfjöllunarefni bókarinnar við það þema og sagði að fjölskyldan væri nýlega búin að halda upp á að 100 ár eru liðin frá fæðingu föður hennar sem lést úr alzheimer. Faðir hennar var þakklátur að leiðarlokum. Hinn þakkláti finnur til hljóðrar gleði. Þannig tengdi hún umfjöllun bókarinnar atburðum úr sínu lífi og fullveldisárinu.
3. Spurningar til Gunnars. Bók Gunnars sem gefin er út af Sögufélagi í samstarfi við Afmælisnefnd aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands heitir. Hinir útvöldu: Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1918. Fyrirspurnir til Gunnars voru fjölbreyttar og svör hans og umræður mjög upplýsandi.
4. Matur fram borinn. Sjávarréttarsúpa og fiskur dagsins.
5. Fundi slitið 20:20
Síðast uppfært 20. jan 2019