Nýjársbréf Etadeildar í janúar 2015
Kæru Etasystur!
Með góðum óskum um gleðilegt ár þakka ég samstarf og samverustundir liðins árs. Ég vona að nýtt ár mæti ykkur mildilega og allar tökumst við hressar á við komandi daga, hver á sínum vettvangi. Með hverjum deginum hækkar blessuð sólin á himinfestingunni og birtir í sál og sinni. Merkileg þessi hringrás árstíða, dagsljóss og myrkurs, eilíf framrás og endurnýjun.
Haustið leið hjá eins og elding, tíminn líður sífellt hraðar með hækkandi aldri. Við áttum þrjá góða og skemmtilega fundi, hvern með sínu sniði. Í byrjun október tókum við hressingargöngu við sjávarsíðuna í Sjálandshverfi Garðabæjar, lyftum andanum eilítið og tókum samræðu um vetrarstarfið á notalegu heimili Önnu Sigríðar gjaldkera. Í byrjun nóvember tókum við hús á Guðrúnu Geirsdóttur í Kennslumiðstöð HÍ, sem fræddi okkur um starfsemi þar og bergðum síðan af reynslu- og fræðabrunni Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur stjórnsýslufræðings. Glæsilegan jólafund héldum við með Kappadeild í Hannesarholti þar sem Ragnheiður okkar kona dekraði við okkur og fengum Kristínu Steinsdóttur rithöfund í heimsókn, sem sagði okkur frá og las úr nýjustu bók sinni, Vonarlandinu. Valgerður Magnúsdóttir sálfræðingur og Kappakona flutti okkur Orð til umhugsunar og leiddi okkur mjúklega inn í aðventuna með vangaveltum um mikilvægi þess að vera til staðar, hvíla í núinu, njóta og leita allra leiða til að láta ekki sogast inn í stress og vanlíðan vegna áreitis í daglegu umhverfi.
Ég hlakka til samstarfs og funda á vormisseri. Verum duglegar að mæta á fundi, njóta og gefa af okkur. Inn í brjóst þitt ein og hljóð, rýndu fast ef röddin þegir segir í Dómum heimsins, ljóði Jóhannesar úr Kötlum. Ég legg til að við skoðum hug okkar hver og ein, með hvaða hugarfari við mætum á fundi, hvers við væntum af starfi okkar og þátttöku í Etdeild, hvað viljum við leggja til fundarins, hvernig getum við verið virkari, gefið meira af okkur og eflt tengslin. Ég tel nauðsynlegt að staldra við af og til, rýna inn á við, spyrja spurninga og ganga með jákvæðu og opnu hugarfari til samstarfs. Þannig fæst meira út úr þátttöku, alls staðar.
Við stefnum að því að hafa fræðandi og skemmtilega fundi og erum svo uppfullar af hugmyndum að við liggur að fundir þyrftu að vera fleiri !! Samstarfið við Kappakonur í kringum jólafundinn og samveran var svo gefandi að konur höfðu á orði að sameiginlegir fundir mættu gjarnan verða fleiri og aldrei að vita nema af því verði ☺
Áður en lengra er haldið vil ég minna á næsta fund, sem er í umsjá hóps 3, og senn líður að, dagsettur miðvikudaginn 4. febrúar. Ráðgert er að vera áfram á jákvæðum, samfélagslegum nótum, huga að gildum, eftir hverju er að sækjast, fræðast um hamingjustuðulinn og rannsóknir í því samhengi. Nánar um innihald fundar, stað og stund fljótlega.
Framundan er svo landsfundur 9. og 10. maí með staðsetningu á höfuðborgarsvæðinu. Eta- og Kappadeild hafa sameinast um undirbúning framkvæmdarþátta s.s. staðsetningu og önnur praktísk mál. Menntanefnd sér hins vegar um inntak og dagskrá. Ég lýsi hér með eftir áhugsömum Etakonum til þátttöku í undirbúningi og bið ykkur að hafa samband sem fyrst. Hef trú á að það geti verið gaman að sjá um þessi mál. Vonandi getum við Etakonur svo fjölmennt og notið þess sem dagskrá býður auk samveru við DKG konur úr öðrum deildum, víðs vegar af landinu.
Ég vil einnig minna á Evrópuþingið í Borås í Svíþjóð 5. 8. ágúst (sjá frekari upplýsingar á vefsíðu DKG). Staðsetning er nærri Gautaborg, sem kom mér verulega á óvart s.l. sumar. Held að gaman gæti verið að hitta Evrópukonur DKG, og kæmi ekki á óvart að við ættum meiri samleið með en þeim bandrísku. Þær DKG konur sem farið hafa á svona samkomur, lofa þær mjög og segja þess virði að taka þátt. Við höfum nægan tíma til að melta þau mál, eflumst kannski svo á landsfundi að við hópumst til Svíþjóðar ☺
Ég læt hér fylgja með síðustu fundargerðir, reyndar held ég að láðst hafi að skrá formlega fundargerð á jólafundi svo nokkrir punktar frá mér verða að duga þar til annað kemur í ljós.
Hlakka til að hitta ykkur hressar.
Með kærri kveðju,
Bryndís
Síðast uppfært 14. maí 2017