2022-2023

1. fundur

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar var haldinn 10.10.2022. kl. 18:00-20:30 í Glerskálanum Finnsson Bistro

 Nýja stjórn Eta deildar skipa Ólöf Helga Þór formaður, Sigríður Heiða Bragadóttir varaformaður, Ásta Lárusdóttir ritari, Hafdís Sigurgeirsdóttir gjaldkeri og Jóhanna Thelma Einarsdóttir vefstjóri.

Stjórn deildarinnar sá um fundinn og voru 17 konur mættar

  1. Ólöf Helga Þór formaður setti fundinn og kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.
  2. Jóhanna Thelma Einarsdóttir vefstjóri stjórnaði fundi.
  3. Jóhanna var með Orð til umhugsunar. Hún ræddi um tvítyngi og jákvæða reynslu sína af því þegar hún dvaldi í Þýskalandi.
  4. Gestur fundarins var Sigríður Ólafsdóttir, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún ræddi um stöðu Tvítyngdra barna í skólum landsins og hvað væri til ráða. Í framsögn hennar kom fram að munurinn á börnum með íslensku sem móðurmál og barna með annað móðurmál væri mikill. Niðurstöður íslenskra rannsókna benda til þess að leikskólabörn með annað heimamál en íslensku nái almennt ekki góðum tökum á íslensku þrátt fyrir langan dvalartíma í leikskólum. Í rannsókn í íslenskum leikskóla kom fram að ekki var lögð eins mikil áhersla á málið hjá þessum börnum. Þetta kom fram í samræðum starfsfólksins við börnin. Orðainnlagnir og opnar spurningar starfsfólksins beindust aðeins að börnum með íslensku sem móðurmál. En málfærni barna eykst í gagnvirkum mállegum samskiptum við starfsfólk og jafnaldra.
  5. Lífleg umræða var síðan um erindi kvöldsins og hvað væri til ráða. Rætt var m.a. um Lista yfir íslenskan námsorðaforða sem getur nýst kennurum vel og jafnframt Námsgagnavefurinn Katla. Í lok fundar var rætt um stöðu nemenda af erlendum uppruna í íslenskum skólum. Fundarmenn lýstu yfir áhyggjum sínum af því að ekki væri hægt að kom nægilega til móts við þessa nemendur.
  6. Fundinum lauk þegar klukkan var langt gengin í átta.

Annar fundur

Fundurinn var haldinn 14. nóvember 2022 í Björnslundi, leikskólanum Rauðhóli. 12 konur mættu og tveir gestir; María Gunnarsdóttir  og Guðmunda Guðlaugsdóttir.

  1. Ólöf Helga Þór setti fundinn og kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.
  2. Eyrún Ísfold tók að sér fundarstjórn.
  3. Eyrún Ísfold var með Orð til umhugsunar og leiddi hópinn í söng um gleði; Svantes visor með táknum.
  4. Þríréttaður kvöldverður var borinn fram sem eldaður var af matráði leikskólans og þjónustuðu leikskólastjóri og leikskólakennari hópinn ásamt því að segja frá útikennslu í Björnslundi.
  5. Guðrún Sólveig Vignisdóttir leikskólastjóri og Gunnlhildur Fjóla Ágústsdóttir deildarstjóri  fluttu mjög fróðlegt erindi um starf leikskólans. Þar kom m.a. fram að Leikskólinn hlaut viðurkenningu Íslensku mennta-verðlaunanna árið 2022 fyrir fagmennsku, gæði í leikskólastarfi og öflugt þróunarstarf. Einkunnarorð leikskólans eru vinátta, virðing og vellíðan. Í leikskólanum hefur verið unnið að þróun leiks og námsumhverfis innan dyra sem utan, með hugmyndafræði Mihaly Csikszentmihalyi um flæði að leiðarljósi. Stjórnendateymi skólans hefur m.a. unnið með leikskóla- skrifstofu Reykjavíkurborgar að því að skapa vettvang fyrir sumarstarfs- fólk í leikskólum Reykjavíkur. Miðlun þekkingar og reynslu til vettvangs er snar þáttur í starfi Rauðhóls. Stjórnendur leita allra leiða til að tngjast samfélagi sínu, þvert á kerfi og fagstéttir.
  6. Að loknu þessu fróðlega erindi sleit Ólöf Helga fundi.

Þriðji fundur haldinn 1. febrúar  2023, kl. 18.00-20.30 í Hannesarholti

  1. Ólöf Helga Þór formaður setti fundinn og kveikti á kertum vináttu trúmennsku og hjálpsemi.
  2. Guðbjörg Vilhjálmsdóttir sá um Orð til umhugsunar og flutti afar áhugaverða kynningu og myndasýningu um formóður sína á meðal Vestur -Íslendinga.
  3. Gestur fundarins var Pála Hallgrímsdóttir verkefnastjóri Snorraverkefnanna. Hún fræddi okkur um þetta áhugaverða verkefni sem leggur áherslu á að byggja brú á milli menningarsvæða, með því að bjóða fólki af íslenskum ættum frá Norður-Ameríku hingað til lands. Markmiðið er að efla tengsl afkomenda vesturfaranna við Ísland og Íslendinga með því að kynna fyrir þeim tungumál og menningu með dvöl hjá ættingjum vítt og breitt um landið. Á sama hátt er íslenskum ungmennum boðið að fara í fjögurra vikna ævintýraferð um slóðir Vestur-Íslendinga í Norður-Ameríku.
  4. Kvöldverður var ljúffengur fiskur og meðlæti.
  5. Fundarkonur tóku síðan lagið saman eins og þær gera svo gjarnan eftir að hafa notið samveru, fræðslu og veitinga.
  6. Fundi var síðan slitið kl. átta.
     

    Fjórði fundur

    Fundurinn var haldinn 15. mars 2023 í Fjölbrautaskóla Breiðholts kl. 17:00-19:30.

     

    1. Skólameistarinn Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir tók á móti okkur í FABLAB smiðju skólans. Forstöðukona smiðjunnar, Þóra Óskarsdóttir fræddi okkur um starfssemina en FabLab Reykjavík er hluti af Fab Lab Ísland. Verkefnið felst í að reka stafræna smiðju sem styður við nýsköpunarhugmyndir meðal almennings, innan menntastofnana og í atvinnulífinu. Á heimasíðu smiðjunnar er hægt að nálgast rafrænt kennsluefni og bent á ókeypis hönnunarforrit.
    2. Sviðstjóri Rafvirkjabrautar, Sigursteinn Óskarsson, tók síðan á móti okkur í kennslustofum brautarinnar og kynnti starfsemi hennar. Fram kom að mikil aðsókn er að náminu sem er bæði verklegt og bóklegt og eru nemendur 368 talsins.
    3. Var nú komið að veitingum og haldið á efri hæð skólans. Þar var fundur settur og kveikt á kertunum þremur.
    4. Undir borðhaldi hélt Halldóra Björnsdóttir, íþróttafræðingur og kennari við skólann mjög áhugaverðan fyrirlestur um beinvernd “Sterk bein fyrir góða daga,” en Halldóra er í stjórn Beinverndar. Í fyrirlestrinum lagði hún mikla áherslu á hreyfingu til að viðhalda beinunum og rétta næringu. Að loknum fyrirlestrinum svaraði Halldóra ýmsum spurningum sem vöknuðu hjá félagskonum.
    5. Orð til umhugsunar flutti Kristín Helga Guðmundsdóttir Eta systir. Hún sagði frá afar skemmtilegu ritlistarnámskeiði sem hún tók þátt í hjá Sunnu Dís Másdóttur og nefnist “Skrifáskorun”.
    6. Að dagskrá lokinni var fundi slitið kl. 19:30.  
     

    Fimmti fundur

    Fundurinn var haldinn 17. apríl 2023 í Glerskálanum í Finnsson Bistro kl. 18:00-20:30. Kvöldverður var borinn fram undir umræðum. Stjórn deildarinnar sá um fundinn og voru 16 konur mættar.

     

    1. Ólöf Helga Þór formaður setti fundinn og kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.
    2. Jóhanna Thelma Einarsdóttir stjórnaði fundi.
    3. Sigríður Heiða Bragadóttir var með Orð til umhugsunar. Hún sagði m.a. frá ritun í skólastarfi og mikilvægi jákvæðs skilnings kennara á ritun.
    4. Ólöf Helga Þór stjórnaði Inntökuathöfn nýs félaga í Eta deild, Sigríði Ólafsdóttur, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Henni voru kynnt 7 meginmarkmið Delta Kappa Gamma samtakanna og hún lýsti sig reiðubúna til að taka þátt í starfi deildarinnar til að ná markmiðunum. Formaður afhenti Sigríði Ólafsdóttur skírteini, gyllta lykillinn og rós. Inntökuathöfninni lauk með hópsöng deildarinnar : Vorvindar glaðir.
    5. Jóhanna Thelma Einarsdóttir sagði frá alþjóðlegri rannsókn um persónulegar frásagnir 10 ára barna. Ísland hefur tekið þátt í þessari rannsókn með þátttöku 22 barna. Eftir framsögn Jóhönnu var félögum skipt í fjögurra manna hópa og sagði hver sína sögu í hópinn. Sögurnar gátu verið um: Þegar ég var glaður…. Þegar ég var áhyggjufullur…. Þegar ég var mjög stoltur…. Þegar ég var mjög reiður… o.s.frv.Síðan sögðu nokkrir félagar úr hverjum hóp öllum félögunum sína sögu. Þetta voru bæði athyglisverðar og skemmtilegar sögur og spunnust mjög líflegar umræður í út frá sögunum.
    6. Fundi slitið kl.20:30 með hópsöng deildarinnar: Sunnan yfir sæinn breiða.

     

 

 

 


Síðast uppfært 05. sep 2024