5. Fundur
Fimmti fundur starfsársins í Etadeild var haldinn 13. mars 2019 kl. 18-21 í Hannesarholti.
Mættar voru: Anna Magnea Hreinsdóttir, Auður Torfadóttir, Ásta Lárusdóttir, Bergþóra Gísladóttir, Björg Kristjánsdóttir, Bryndís Guðmundsdóttir, Brynhildur Ragnarsdóttir, Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir, Jóhanna T. Einarsdóttir, Kristín Ágústa Ólafsdóttir, Ólöf Helga Þór, Ragnheiður J. Jónsdóttir, Ragnhildur Konráðsdóttir, Sophie Kofoed Hansen, Stefanía V. Stefánsdóttir, og Þórunn Blöndal.
Undirbúningsnefnd skipuðu: Auður T., Bergþóra, Bryndís G., Ingibjörg S., Kristín Ágústa, Ragnheiður og Stefanía.
Björg formaður setti fund og kveikti á kertum. Síðan voru ýmsar tilkynningar og m.a. minnt á landssambandsþingið 5. maí n.k. Björg hvatti fundarkonur, sem ekki hafa sent inn myndir í félagatalið, að gera það sem fyrst.
Áður en dagskrá hófst, tóku fundarkonur lagið undir stjórn Kristínar.
Bryndís tók við fundarstjórn og byrjaði á nafnakalli. Síðan flutti hún aðfaraorð að dagskrá. Þema fundarins var: Samskipti – samvera í þeim anda að blanda geði, kynnast betur og gefa öllum fundarkonum kost á að flytja sitt eigið orð til umhugsunar; tjá sig um það sem þeim væri ofarlega í huga og hverju þær langaði að deila.
Ragnheiður reið á vaðið og las ljóð eftir Hannes Hafstein með sterkum boðskap sem á vel við í dag. Síðan tók við hver af annarri og bar margt á góma. Nokkrar fjölluðu um starfslok og frelsið sem þau veita til að haga tíma sínum að vild, rækta sambönd við vini og ættingja og sinna tómstundum. En einnig kom fram eftirsjá eftir skemmtilegu starfi.
Vandamál heimsins voru nokkrum hugleikin og má þar nefna umhverfismál, matarsóun, fatasóun og fleira. Einnig komu fram áhyggjur af framtíð barna, sérstaklega þeirra sem búa við erfiðar aðstæður. Minningar úr æsku komu til tals. Rifjaðar voru upp góðar minningar úr hverfinu í nágrenni Hannesarholts þar sem afi og amma bjuggu. Ein bókelsk greindi frá því hvernig hún með útsjónarsemi varð sér úti um lesefni á yngri árum. Minningar tengdar myndum bar einnig á góma og mikilvægi þess að gleyma ekki fortíðinni, varðveita myndir og meta gildi þeirra fyrir afkomendur. Áskoranir daglegs lífs komu til umræðu, eins og að takast á við sjóndepru eða jafnvægið milli einkalífs, vinnu og tómstunda.
Loks var rætt um hve miklu skipti að rækta tengsl, gefa af sér, sýna samúð og samkennd og eiga góð samskipti við aðra.
Á milli frásagna var borinn fram ljúffengur kvöldverður. Sætaskipan hafði verið fyrirfram ákveðin til að blanda hópnum sem best saman og einnig voru sætaskipti.
Ekki var annað að sjá og heyra en að fyrirkomulag fundarins hafi tekist vel og að fundarkonur hafi tekist á við þema fundarins með glans.
Björg formaður sleit fundi kl. 21:00
Síðast uppfært 01. apr 2019