Aðalfundur
Aðalfundur Etadeildar 2018
Fundargerð Aðalfundur Eta deildar DKG 16. maí 2018 í Hannesarholti Dagskrá:
1. Fundur settur - skipun fundarstjóra og ritara
2. Aðalfundarstörf - Skýrsla formanns - fyrirspurnir - Gjaldkeri gerir grein fyrir reikningum - fyrirspurnir - Kosning nýrrar stjórnar - Önnur mál
3. Léttur kvöldverður - Súpa að hætti kokksins með heimabökuðu brauði - kaffi og sætbiti fylgir með.
4. Gestur fundarins - Þórunn Björnsdóttir kórstjóri og Delta Kappa Gamma félagi. Hún segir frá Tónlist fyrir alla í Kópavogi á árunum 1991-2018, sem hún var þátttakandi í og fjallaði um í meistararitgerð sinni í Menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst.
5. Fundi slitið Mættar: Anna Sigríður, Brynhildur, Björg, Ásta, Bryndís G., Magnea, Sigríður Heiða, Guðrún Hrefna, Anna Magnea, Ingibjörg Sím., Bryndís S., Eyrún, Auður Torfa., Ágústa Unnur, Kristín Helga, Ingibjörg Möller, Ragnheiður, Stefanía, Hafdís, Sophie, Kristín Ólafs.
- Bryndís, formaður, setti fundinn og skipaði Guðrúnu Hrefnu fundastjóra og Hafdísi ritara
- Skýrsla stjórnar Bryndís Guðmundsdóttir flutti skýrslu stjórnar sem birt verður á heimasíðu Etadeildar. Að lokinni skýrslu stjórnar upplýsti fundarstjóri að hún hefði fengið þakkarbréf frá Catherine Chandellier Rodriguez þar sem hún þakkar fyrir styrkinn til verkefnis hennar, Listamannafræ (Graines d'artistes) sem Eta deild styrkti. Fundarmenn létu í ljós ánægju með hvað skýrslan væri ítarleg og var hún samþykkt án athugasemda.
- Skýrsla gjaldkera Anna Sigríður Pétursdóttir, gjaldkeri, fór yfir fjárhagsyfirlit Eta deildar fyrir síðustu tvö starfsár. Gjöld umfram tekjur voru kr. 12.398. Staða á bankareikningi í lok tímabilsins er kr. 84.707. Spurt var um bankakostnað og gjaldkeri upplýsti að nú væru árgjöld innheimt í gegnum netbanka og mælti með að því yrði haldið áfram þó því fylgdi einhver kostnaður. Fjárhagsyfirlitið var samþykkt samhljóða.
- Kosning stjórnar Kristín Á Ólafsdóttir gerði grein fyrir starfi uppstillinganefndar. Í uppstillingarnefnd voru Anna Magnea Hreinsdóttir, Hafdís Sigurgeirsdóttir og Kristín Á. Ólafsdóttir. Tilaga nefndarinnar um stjórn næstu tvö árin var eftirfarandi: Björg Kristjánsdóttir, formaður og aðrar í stjórn Ágústa Unnur Gunnarsdóttir, Sophie Kofoed Hansen, Auður Elín Ögmundsdóttir og Ragnhildur Konráðsdóttir. Auður Elín var í síðustu stjórn en hinar eru nýjar. Tillaga uppstillingarnefndar var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
- Önnur mál Fráfarandi gjaldkeri lagði til að árgjöld næstu tvö ár yrðu óbreytt kr. 11.500. Tillagan var samþykkt. Nýr formaður Björg Kristjánsdóttir tók til máls og þakkaði traustið. Björg nefndi að gott væri að viðhafa þá venju að hafa nefnakall á fundum deildarinnar.
- Léttur kvöldverður - Gestur fundarins Þórunn Björnsdóttir, kórstjóri og Delta Kappa Gamma félagi, sagði frá starfi sínu í verkefninu Tónlist fyrir alla í Kópavogi og meistaranámsverkefni sínu í Menningarstjórnum við háskólann á Bifröst. Hún byrjaði á að segja frá atburðum í æsku sem höfðu áhrif á afstöðu hennar síðar og frá upphafi starfs síns sem kórstjóri í Kársnesskóla. Þórunn vildi að allir krakkar fengju að upplifa þá gleði sem fólk fær út úr því að syngja og krakkarnir fengju allir að koma í kórinn sem vildu. Jónas Ingimundarson, Þórunn og Björn Þorsteinsson hófu samstarf um að skipuleggja tónlistaratburði fyrir börn. Þannig hófst Tónlist fyrir alla í Kópavogi sem stóð í 18 ár samfellt. Á þessum 18 árum voru skipulagðir 1200 tónlistarviðburði með mjög fjölbreyttu sniði.
Markmið Tónlistar fyrir alla í Kópavogi var að gefa grunnskólanemendum tækifæri á að hlusta á og njóta fjölbreyttrar tónlistar í lifandi flutningi þannig að þau fengju tónlistarlegt uppeldi og reynslu. Heiti mastersritgerðar Þórunnar er “Eigum við að spila fyrir alla þessa krakka?” Þar skrifar hún sögu verkefnisins Tónlist fyrir alla í Kópavogi og leitast við að meta hvort það hafi haft áhrif á þróun tónlistarlífs og tónlistarhalds í Kópavogi.
Í niðurstöðum hennar kemur fram að skólasamfélagið var mjög velviljað verkefninu og viðmælendur álitu mikilvægt að börn á grunnskólaaldri fengju tækifæri til að hlusta á annars konar tónlist en þau velja sjálfviljug. Einnig kom fram að það skiptir miklu að nemendur geti notið lista og listrænnar upplifunar óháð efnahag. Að loknu skemmtilegu og afar fróðlegu erindi sungu fundarmenn saman undir öruggri stjórn Þórunnar. Fundi var slitið kl. 21:00
Hafdís Sigurgeirsdóttir, fundarritari
Síðast uppfært 22. júl 2018