4.fundur2018
Fundur var haldinn í Etadeild fimmtudaginn 28. febrúar 2018 kl. 18:00-20:30 í hliðarsal Kringlukráar.
Fundurinn var í umsjón hóps 1, en hann skipuðu: Auður T., Ágústa, Ingibjörg S., Jóhanna, Kristín Helga, Sif og Soffía.
Fundinn sóttu: Anna Magnea, Anna S., Auður T., Auður Ö., Björg, Bryndís G., Brynhildur, Eyrún, Guðbjörg, Guðrún Hrefna, Hafdís, Ingibjörg M., Ingibjörg S., Jóhanna, Kristín Helga, Kristín Ágústa, Ólöf, Ragnhildur, Sif, Soffía, Stefanía, Þórunn.
Formaður setti fund og kveikti á kertum.
Fundarstjóri: Sif
Fundarritari: Auður T.
Gestur fundarins var Ragnar Þór Pétursson verðandi formaður Kennarasambands Íslands, þekktur fyrir störf í menntageiranum og fyrir pistla sem vakið hafa almenna athygli.
Erindi sitt eða hugvekju kallaði Ragnar “Þegar orð fá vængi”. Hann kom víða við. Kjarninn í máli hans var sá að menntun væri fólgin í því sem gerist í huga nemenda, og til þess að árangur verði þurfa aðstæður að vera þannig að nemendum líði vel og að þeir njóti sín á eigin forsendum. Mælingar segi ekki allt.
Ragnar kom inn á almenna umræðu um skólamál sem oft er óvægin og byggist ekki alltaf á réttum upplýsingum. Umræðan birtist oft í andúð á breytingum, svo sem staðhæfingum um að allt hafi verið betra áður fyrr, bókaþjóðin hafi verið svo til 100% læs og ungmennin betri og betur á sig komin en nú. Þessar mýtur hrakti Ragnar með skýrum dæmum. Það er nokkuð algengt að skóli án aðgreiningar sé gerður að sökudólg. Ragnar benti á að það væri álitamál hverja ætti að greina að, hverjir væru öðruvísi, ef einhverjir.
Það er langt frá því að Ragnar geri lítið úr gagnrýni. Hann telur að það sé alvarleg kreppa í skólakerfinu sem verði að takast á við ef ekki eigi illa að fara. Hann nefndi auk þess þá brýnu nauðsyn að bjarga íslenskunni og efla lesskilning og orðaforða.
Að lokinni frábærri hugvekju Ragnars urðu fjörugar umræður og bar margt á góma. Þegar umræðan barst að endalausri gagnrýni á grunnskólann, sló Ragnar því fram að hún væri óvægnari vegna þess að hér væri um að ræða kvennastétt og konur lægju vel við höggi í okkar samfélagi.
Í lokin fékk Ragnar rós og Sif fékk einnig rós í tilefni þess að skólinn hennar, Norðlingaskóli, hafði fengið viðurkenningu úr minningarsjóði Arthurs Mothens fyrir markvissa framkvæmd á hugmyndum um skóla án aðgreiningar.
Áður en matur var framborinn flutti Kristín Helga orð til umhugsunar. Hún lagði út af reynslu sinni sem fulltrúi í alþjóðanefnd DKG – Communication and Publicity. Hún hvatti konur til að gefa kost á sér í alþjóðanefndir, það væri lærdómsríkt og gefandi og opnaði nýja sýn á starfsemi DKG.
Meðan á borðhaldi stóð héldu umræður áfram og greinilegt var að okkur lá mikið á hjarta.
Bryndís formaður tók til máls í lokin með nokkrar tilkynningar. Hún minnti á vorþingið sem haldið verður á Egilsstöðum í maí og hvatti konur til þátttöku. Hún minnti okkur á að það þyrfti að fjölga í deildinni. Í vor lýkur núverandi stjórn störfum og Bryndís hvatti konur til að gefa kost á sér. Starf formanns væri ekki yfirþyrmandi og með góðri samvinnu gengi allt upp.
Hún sleit fundi 20:30 eftir velheppnaðan og fjölsóttan fund.
Síðast uppfært 19. mar 2018