2. fundur

Fundur í Eta - deild haldinn í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti 29. 10. 2009 kl 18:30

 

1.   Brynhildur formaður setti fundinn og kveikti á kertum. Brynhildur óskaði fimm konum í deildinni til hamingju með áfanga sem þær hafa náð í námi eða starfi  að undanförnu. Hún veitti þremur konum sem voru á fundinum (H)rós í barminn en þær voru Guðrún Hrefna, Jóhanna E. og  Bryndís S. Tvær voru fjarverandi þær, Sif  og Eyrún Gísla.

 

Brynhildur þakkaði Guðrúnu Hrefnu skólameistara Fjölbrautarskólans í Breiðholti fyrir að taka á móti okkur. Að því loknu fól Brynhildur, Jóhönnu Einarsdóttur fundarstjórn. Jóhanna fór yfir dagskrá fundarins og kynnti svo dagskrárliði einn af öðrum.

 

2.   Orð til umhugsunar voru í höndum Bryndísar Guðmundsdóttur en hún deildi með okkur kafla úr bókinni “Gæfuspor” og ræddi um gleðina.

 

3.   Auður Torfadóttir sagði í stuttu máli  frá stöðu verkefnisins “Heilahristingur” sem felst í heimanámsaðstoð við nemendur sem eru af erlendu bergi brotnir. Reynslan sýnir að nemendur af unglingastigi mæta ekki nógu vel. Aðstoðin skilar sér betur til nemenda á miðstigi. Þarf að blása meira lífi í þetta verkefni.

 

4.   Fundarmenn gæddu sér á góðri kjúklingasúpu og kókoskrönsum og kaffi í eftirrétt. Með kaffinu var auk þess boðið upp á afríksættaðan drykk að nafni Amarula. En með honum var sleginn taktur fyrir haustsveifluna síðar á fundinum.

 

5.   Þá var komið að erindi kvöldsins en það flutti Ágústa Unnur Gunnarsdóttir kennari í FJölbrautarskólanum í Breiðholti.

Hún kynnti starfið á Innflytjendabraut sem starfrækt er við skólann og hún er í forsvari fyrir. Deildin var stofnsett 2007. Nú eru 15 nemendur sem  stunda nám við deildina og mikið samstarf er við skólana í hverfinu. Nemendur fara í grunnskólana og leikskólana til aðstoðar við börn af sama þjóðerni. Þetta verkefni heitir “Nýtt tækifæri” og hefur gefist vel.

 

6.   Önnur mál

 

Brynhildur, formaður ræddi um heimasíðuna og að hún yrði okkur til gagns, upplýsingar um fundi verða settar inn jafnóðum og félagaskrá verður á læstu svæði.

 

Upplýsingar bárust frá forseta samtakanna að stofnaður hafi verið gönguhópur. Margrét Jónsdóttir mun leiða hópinn og áætlað er að hittast fyrsta þriðjudag í hverjum mánuði kl 17:30 – 18:30 við Perluna í Öskjuhlíð.

 

Ólög Helga Þór ræddi um jólafundinn sem verður 16. des. heima hjá Stefaníu.

 

7.   Síðasta atriði á dagskrá var “haustsveifla” en þá kenndi Sólveig Hauksdóttir aðjúnkt í leikskólafræðum okkur nokkur grundvallar spor í afrískum dansi. Fundarkonur tóku virkan þátt og lifðu sig inn í þá stemmingu sem skapaðist þegar hin afríska tónlist hljómaði um salarkynni Fjölbrautarskólans í Breiðholti.


Síðast uppfært 14. maí 2017