Fyrsti fundur í Zetadeild haustið 2019
Fundur hófst á hefðbundnum störfum. Kveikt á kertum, fundargerð frá vori lesin, markmið félagsins og síðan fór gjaldkeri yfir reikningsmál. Starfsáætlun vetrar var kynnt og taka allar konur þátt í að skipuleggja fundi yfir veturinn. Einnig var ákveðið að dagsetja fundina en að sú dagsetning sem ákveðin er að hausti væri sveigjanleg ef það hentar félagskonum betur. Lögð var áhersla á að fundum er ekki frestað nema veður hamli för.
Margret Björk Björgvinsdóttir var með orð til umhugsunar. Þar sagði hún ferðasögu frá gönguferðum sínum um Jakobsveginn í máli og myndum. Virkilega áhugaverð ferð og hugsanlegt að áhugi hafi kviknað hjá einhverjum félagskonum að kanna nýja vegaslóða, hver veit. Ferð sem þessi krefst mikils undirbúnings og af umfjöllun hennar og myndum að sjá má ljóst vera að þessi ferð er bæði nærandi fyrir sál og líkama. Á mynd sem fylgir frétt er Margret stödd við Cross de Ferro. Þar skilja pílagrímar eftir stein frá heimalandinu. Hún endaði umfjöllun sína á orðum um mikilvægi þess að burðast ekki með of mikið í bakpokanum og eiga þau orð hennar vel við og auðvelt að yfirfæra þau á lífið sjálft.