27. mars 2017

Fundagerð Zeta deildar DKG haldinn 27.3 á Fáskrúðsfirði í umsjón Bjargar og Jórunnar.

Mættar voru: Ruth, Sigríður Herdís, Steinunn, Harpa, Guðrún, Björg, Jórunn, Helga Magnea og tveir gestir þær Marta Wíum og Unnur Sveinsdóttir.

 Fjarverandi voru: Helga, Kristín, Hildur Vala, Halldóra og Hrefna. 

Fundurinn hófst á því að félagskonur hittust í nýlegu Norðurljósasafni á Fáskrúðsfirði þar sem frábærar norðurljósamyndir þeirra Jónínu Óskarsdóttur og Jóhönnu K. Hauksdóttur skreyta salinn í gamla Wathne húsinu. Tók Jónína á móti hópnum og var þetta ánægjuleg og fræðandi stund.

Að lokinni heimsókn í Wathnehúsið var haldið inn á veitingastaðinn L´Abri sem er til húsa í Fosshótelinu á staðnum. Þar var fundur settur formlega af formanni Helgu Magneu sem bauð félagskonur og gesti velkomna og Jórunn kveikti á kertunum þremur.

Gestur fundarins var Berlind Agnarsdóttir sögukona með meiru sem sagði okkur frá ,,Pölluskóla“ sem Pálína nokkur frá Fáskrúðsfirði setti á fót um miðja síðustu öld og tók að kenna krökkum 6-7 ára að lesa. Sjálf hafði hún farið til Reykjavíkur fyrir tistilli styrks frá sveitarfélaginu að læra handmennt. Margir ,,erfiðir“ drengir voru lengi í skóla hjá Pöllu allt til 10 ára aldurs. Þegar Berglind sjálf gekk í grunnskólann á staðnum voru allir hennar jafningjar læsir þar sem þau höfðu öll gengið í ,,Pölluskóla“.

 Þá sagði Berglind okkur frá Regínu Normann norskum rithöfundi sem uppi var á nítjándu öld. Hún giftist aðeins 17 ára manni sem var 21 ári eldri en hún en hann bannaði henni bæði að lesa og skrifa. Til að fá frið til þess laumaðist Regína alltaf í helli þar sem hún bæði las og skrifaði við kertaljós. Regína giftist aftur frægum rithöfundi og fór að kenna í drengjaskóla þar sem hún bjó til ævintýri handa drengjunum sínum. Við fengum síðan að heyra Berglindi segja okkur eitt af þessum mögnuðu ævintýrum :-)

Orð til umhugsunar voru í höndum Bjargar og fjallaði hún um mikilvægi þess að gefa af sér og í því sambandi vitnaði hún í minningargreinar sem skrifaðar voru um Stefán Má Guðmundsson kennara í Verkmenntaskóla Austurland sem nýlega er fallinn frá, langt fyrir aldur fram.

Umræður voru bæði tengdar ævintýrum Berglindar og umhugsunar orðum Bjargar. Mikilvægi þess að gefa af sér og lifa lífinu lifandi og láta neikvæð orð og ummæli ekki ná tökum á okkur þó auðvelt sé.

Gestir fundarins voru áhugasamir um félagsskapinn og spurðu um starf deildarinnar og er það von okkar að þær muni ganga í félagið.

Félagskonur voru minntar á Landssambandsþingið á Akureyri í byrjun maí og á aðalfundinn sem halda á 18.5 í Neskaupstað. Guðrún varaformaður sleit síðan fundi og Jórunn slökkti á kertunum.

Fundi slitið kl. 20:00

Helga M. Steinsson


Síðast uppfært 12. maí 2017