Skýrsla stjórnar 2018-2020
Skýrsla stjórnar Zetadeildar DKG fyrir 2018 – 2020
Ný stjórn var kosin á aðalfundi Zetadeildar í maí 2018 á Óbyggðasetrinu í Fljótsdal. Í stjórn voru skipaðar þær: Guðrún Ásgeirsdóttir, formaður, Marta Wium Hermannsdóttir og Margret Björk Björgvinsdóttir meðstjórnendur. Harpa Sigríður Höskuldsdóttir er gjaldkeri deildarinnar.
2018
Stjórnin hittist á fundi í byrjun ágúst og setti saman starfsáætlun deildarinnar. Fullar eftirvæntingar staðsettum við fyrsta fundinn á Seyðisfirði. Til fundar var boðað í september en minnugar heimsfræga ófærðar fundarins á Stöðvarfirði var ákveðið að leggja ekki í Fjarðarheiðina vegna veðurs og féll fundur því niður.
Næsti fundur í Zetadeild gekk vel og var hann haldinn í Neskaupstað 23. október. Margumtalað veður var með okkur að þessu sinn. Á eftir hefðbundnum félagsstörfum sagði Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar okkur frá starfseminni. Austurbrú vinnur m.a að hagsmunamálum íbúa á Austurlandi og veitir samræmda og þverfaglega þjónustu tengda
atvinnulífi, menntun og menningu.
Annar fundur í Zetadeild var haldinn 22. nóvember 2018 í Tehúsinu Hostel Egilsstöðum. Fundurinn hófst í Húsi Handanna þar sem Lára Vilbergsdóttir tók á móti zeta konum og kynnti fyrir þeim starfsemina. Hús Handanna er sérverslun og gallerí þar sem megináhersla er lögð á að kynna og efla hvers kyns framleiðslu, hönnun, handverk og listsköpun á Austurlandi. Að heimsókninni lokinni var haldið í Tehúsið þar sem hefðbundin fundarstörf tóku við. Gestur fundarins var Anna María Arnfinnsdóttir námsráðgjafi við Egilsstaðaskóla, hún sagði frá jákvæðri sálfræði og hvernig hún hefur nýst henni í starfi.
2019
Fyrsti fundur ársins 2019, sem halda átti í febrúar féll niður. Vegna, kemur ekki á óvart, veðurs.
Við náðum síðan að hittumst á Eskifirði þann 13. mars, mæting góð og einn gestur mætti á fundinn. Á fundinum greindi formaður frá því að Marta Wium hefði óskað eftir því að hætta í deildinni. Það er alltaf sárt að sjá á eftir konum úr félaginu og mikilvægt að bjóða þeim að koma aftur þegar betur stendur á. Stjórnin var því skipuð tveimur konum fram á vorið en Guðmunda Vala Jónasdóttir kom inn í stjórn haustið 2019. Að loknum fundarhefðum áttum við umræður um starf deildarinnar og fyrirkomulag funda. Við ræddum einnig að ekki væri alltaf nauðsynlegt að leita út fyrir deildina, við sjálfar hefðum frá ýmsu að segja og vettvangurinn kjörinn til þess að segja frá því. Við fengum síðan fróðlegan fyrirlestur frá Maríu Hjálmarsdóttur verkefnastjóra hjá Austurbrú. Hún sagði okkur frá verkefninu um Áfangastaðinn Austurland sem er samvinnuverkefni og opið öllum sem vilja og hafa áhuga.
Veðrið lék við okkur í maí 2019 þó kalt væri og það tókst að halda vorfundinn á Seyðisfirði. Tvær nýjar konur bættust í hópinn, þær Ólafía Þórunn Stefánsdóttir og Unnur Óskarsdóttir sem gengu formlega í Zetadeild DKG. Athöfnin var notaleg og umgjörðin, gamli skólinn á Seyðisfirði, þessi rúmlega hundrað ára gamla bygging undirstrikaði stemninguna. Á fundinum veltum við fyrir okkur mikilvægi þess að efla borgaravitund í skólastarfi í anda Sigrúnar Aðalbjarnardóttur. Þær Ólafía og Unnur fóru svo með fundarkonur í skoðunarferð um Seyðisfjarðarskóla og síðan leiddi Unnur hópinn í stutta yoga-hugleiðslu. Við borðuðum saman og að því loknu héldu félagskonur út í sumarið.
Fyrsti fundur haustið 2019 var haldinn á Reyðarfirði. Stjórnin hafði áður fundað og lögð var fram starfsáætlun vetrar. Allar konur í félaginu taka þátt í að skipuleggja og staðsetja fundi vetrarins. Margret Björk Björgvinsdóttir var með orð til umhugsunar. Þar sagði hún okkur frá gönguferð sinni um Jakobsveginn.
Boðað var til næsta fundar sem haldinn var í nóvember 2019 á Fáskrúðsfirði. Á þessum fundi hlýddum við á fræðslu Sigrúnar Birnu Björnsdóttur, fræðslustjóri hjá Alcoa, Reyðarfirði. Hún sagði okkur frá því hvað fellst í starfi fræðslustjóra í álveri og fjallaði um Stóriðjuskólanum. Verum vakandi voru orð til umhugsunar á fundinum, Björg Þorvaldsdóttir talaði um samkeppni við hin ýmsu áreiti og áhrifavalda á netmiðlum og um mikilvægi þess að styðja við og vekja foreldra til umhugsunar um mikilvægi lesturs og að snjalltæki komi ekki í staðinn fyrir bækur.
Jólafundurinn var haldinn í byrjun desember í Neskaupstað og áttum við saman notalega stund. Það er eitthvað við jólafundina, þessi árstími kallar fram svo margar minningar. Við fengum fróðleik um húsið sem við héldum fundinn í. Þar hafði áður verið starfrækt Kaupfélag en í dag er þar rekið Hótel. Góðar umræður voru um bækur sem við vorum að lesa eða höfðum nýlega lesið. Síðan héldu konur í jólafrí og eins og að venju stóð ekki til að hittast aftur fyrr en í febrúar 2020.
2020
Árið 2020, þessu ári eigum við sennilega seint eftir að gleyma. Fyrsti fundur ársins átti að vera á Egilsstöðum í febrúar en honum var aflýst, vegna veðurs. Sama er að segja um næsta fund sem halda átti á Seyðisfirði í mars. Það var því næst á dagskrá samkvæmt starfsáætlun zetadeildar að halda aðalfund í apríl. Stjórnin hittist í mars og skipulagði aðalfund, en svo kom kórónaveiran og tók af okkur öll ráð. Stjórnin ákvað því að vinna í lausnum og láta þessi vaff orð, vont veður og veira ekki tak alveg völdin og blés til netfundar í apríl sem tókst alveg ljómandi vel. Mér skilst að zetadeildin hafi verið eina deildin innan DKG sem nýtti sér þetta fundarform. Ég vil samt ekki skipta því formi út fyrir hefðbundna fundi en lausnir má oftast finna ef vilji er fyrir því. Gestur okkar á fundinum, Ásthildur Kristín Garðarsdóttir grunnskólakennari og MA í jákvæðri sálfræði fræddi okkur um leiðir til að vinna bug á neikvæðni með jákvæðni að leiðarljósi og að kærleikurinn á ekki síður við okkur sjálf. Ekki var um sameiginlega máltíða að ræða á þessum fundi, upplifun af matarlykt og bragði bert víst enn ekki í gegnum netheima.
Í dag 2. júní höldum við síðan aðalfund þar sem núverandi formaður lætur af störfum. Haldnir hafa verið 9 félagsfundir og þar af 1 netfundur. Stjórnarfundir voru þó nokkrir bæði haldnir í raunheimum, netheimum og með tölvupóst samskiptum. Tveir framkvæmdaráðsfundir en á þeim fundum hittast formenn deilda og stjórn samtakanna. Mjög skemmtilegir, gagnlegir og fróðlegir fundir. Einn aðalfundur og Evrópuráðsþing DKG í Reykjavík 2019. Vorfundinn sem halda átti í maí s.l verður haldinn í Borgarnesi nú í september og hvet ég félagskonur til þess að sækja fundinn hafi þær tök á því dagskráin er afar spennandi.
Það sem mig langar að nefna fyrir komandi stjórn er að halda áfram að efla og stækka deildina. Það mætti líka fara að vinna upp efni úr gömlum fundargerðum og setja inn á síðuna þar sem það er aðgengilegt fyrir allar félagskonur. Síðustjóri er meira en til í að halda áfram starfi en lætur það hlutverk fúslega af hendi verið falast eftir því. Ég vek einnig athygli á að því að það er afmælisár og tilvalið að ræða hér á eftir hvort að áhugi er fyrir því að deildin standi fyrir einhverjum viðburði. Mig langar að gefa zetadeildinni formanns næluna mína. Ég óska eftir því að hún verði eign deildarinnar og afhent nýjum formanni hverju sinni til láns. Fráfarandi formaður getur þá valið það þegar hann lætur af störfum hvort að hann kaupi sér fyrrverandi formanns nælu.
Markmið okkar var að huga að andlegri vellíðan félagsmann og láta starfið blómstra. Það höfum við gert, nært bæði sál og líkama og unnið í lausnum, meira að segja heimsfaraldur stoppar okkur ekki. Ég vil að lokum þakka uppstillingarnefndinni þeim Helgu Steins og Halldóru fyrir þeirra vinnu og óska nýrri stjórn og okkur öllum gleðilegs sumar og fyrir hönd fráfarandi stjórnar þakka ég kærlega fyrir gott og gefandi starf undanfarin ár.
Guðrún Ásgeirsdóttir
Síðast uppfært 03. jún 2020