Fundargerð 1. mars 2023.
Deildarfundur í Z-deild DKG
Miðvikudaginn 1.mars 2023 kl. 17:00 í Sláturhúsinu – Menningarmiðstöð á Egilsstöðum
Mættar: Jórunn Sigurbjörnsdóttir, Björg Þorvaldsdóttir, Guðrún Ásgeirsdóttir, Halldóra Baldursdóttir, Helga Guðmundsdóttir, Hrefna Egilsdóttir og Ruth Magnúsdóttir
Forföll boðuðu: Ólafía Þ. Stefánsdóttir, Steinunn Lilja Aðalsteinsdóttir, Helga Steinsson, Sigríður Herdís Pálsdóttir, Guðmunda Vala Jónasdóttir, Marta Wium Hermannsdóttir og Unnur Óskarsdóttir.
Undirbúningur fundar var í höndum: Helgu Guðmundsdóttur, Hrefnu Egilsdóttur og Ruthar Magnúsdóttur.
Ragnhildur Ástvaldsdóttir forstöðumaður Sláturhússins – Menningarmiðstöðvar tók á móti hópnum og greindi frá aðdraganda að stofnun Menningarmiðstöðvarinnar og þeirrar ákvörðunar að hún er til húsa í Sláturhúsinu á Egilsstöðum og ber nafn hússins jafnframt. Síðastliðið haust lauk gagngerum endurbótum á húsinu og gekk Ragnhildur með hópnum um sali. Anna María Þórhallsdóttir, arkitekt hjá Snyddu á Egilsstöðum, teiknaði endurbæturnar og þykir vel hafa tekist til að samræma sögu hússins og nýtt hlutverk þess. Ungmennahús er jafnframt til húsa í Sláturhúsinu. Í húsinu eru tvær sýningar í gangi sem hópurinn skoðaði. Annarsvegar sýning Jessicu Auer – Landvörður og hins vegar margmiðlunarsýning sem er samvinna Listaháskóla Íslands og Landsvirkjunar. Um sýningu Jessicu Auer af heimasíðu Sláturhússins:
Jessica Auer hefur verið búsett bæði á Íslandi og í Kanada um árabil. Hún er á heimavelli á Íslandi en á einnig auðvelt með að setja sig í spor ferðamannsins sem kemur til Íslands í leit að nýrri upplifun. Jessica hefur frá árinu 2016 ferðast víða um land til að festa slóð ferðamannsins á filmu. Um leið hefur hún myndað þau sem standa vörð um landið, landverði í náttúru Íslands.
Helga þakkaði Ragnhildi greinargóða kynningu og færði henni rauða rós. Því næst beið fundarkvenna ævintýralega staðsett borðhald við stóran útsýnisglugga sem snýr inn Héraðið. Veitingar voru úr Tehúsinu, Harissa súpa með döðlum, fersku kóríander og súraldinum. Auk heimabakaðs brauðs með húmus eða smjöri.
Helga Guðmundsdóttir bauð fundarkonur velkomnar, kveikti á kertum og setti fund.
Hrefna Egilsdóttir las markmið DKG og sýn.
Helga Guðmundsdóttir var með orð til umhugsunar og fjallaði um þau tímamót sem hafa verið hjá henni nýlega þar sem hún hætti sem fræðslustjóri Múlaþings síðastliðið ár og fagnaði 70 ára afmæli nýlega. Hún lagði út frá því sem mótar einstaklinginn á starfsævi sinni. Fundarkonur óskuðu Helgu heilla á þessum tímamótum og nokkur umræða spannst í framhaldinu.
Að loknu innleggi Helgu voru óformlegar umræður. Þar var m.a. rætt um vinnu við ný lög um skólaþjónustu, en samráðsferli um þau stendur yfir. Helst höfðu fundarkonur áhyggjur af námslegri þjónustu almennt og einnig nemendum með námserfiðleika. Einnig voru umræður um gervigreind og hlutverk hennar í skólastarfi.
Klukkan 19:30 sleit Helga fundi og þakkaði fundarkonum fyrir fundinn.
Ritari: Ruth Magnúsdóttir
Síðast uppfært 11. mar 2023