Fundargerð 4. desember 2024

Desemberfundur í Zeta-deild DKG

4. desember 2024 kl. 17:00 í Sólinni, Fellabæ.

Mættar eru Sigga Dís, Helga G., Sigurbjörg Hvönn, Björg, Guðrún Á., Guðmunda Vala, Jórunn, Helga Steinson og  Ruth. Fundinn undirbjuggu Helga Guðmunds, Unnur Óskarsd og Guðmunda Vala.

Heimsókn í Sólina – frístundaheimili fyrir börn með þörf fyrir stuðning í Múlaþingi. Unnur Ólöf Tómasdóttir tók á móti hópnum og kynnti stofnun og starfsemi Sólarinnar. Félagskonum var boðið upp á hressingu, kakó og sætt með því. Umræður um ýmislegt sem tengist starfseminni og skoðunarferð um húsið sem áður var Leikskólinn Hádegishöfði. Lögð hefur verið áhersla á góða hljóðvist og skynjunarvæn rými við endurbætur á húsnæðinu.  Jafnframt hefur verið lagt upp úr því að gera rýmin ólík bæði hvað varðar liti, notkun og skynjun. Unni Ólöfu var þökkuð góð kynning og óskað til hamingju með nýtt frístundaheimili.

Félagskonur héldu síðan á Tehúsið þar sem fundað var áfram.  

Guðmunda Vala kveikti á kertum og las markmið félagsins. Ruth kynnti erindi frá uppstillinganefnd DKG vegna Landssambandsþings sem haldið verður í vor. Frestur til að skila inn tilnefningum er til loka janúar 2025.

Gert var matarhlé og snædd harissa súpa með kóríander, súraldini og döðlum. Meðlæti var súrdeigsbrauð og hummus.

Eftir matarhlé var Helga Guðmundsdóttir með orð til umhugsunar og gerði föruneyti barns um jól að sínu umtalsefni. Hún sagði frá uppvexti sínum innan búðar í Hafnarfirði, þar sem faðir hennar rak verslun. Krakkar fengu snemma hlutverk við að aðstoða fullorðna í jólaönnum í versluninni. Ofarlega í minni er Þorláksmessukvöld, þar sem  pöntunum var ekið heim til viðskiptavina. Alls staðar var fólk að undirbúa jólin og kaupmanninum og hjálparmönnum hans var boðið eitthvað gott í hverju húsi svo sem smákökur eða annað sem tilheyrði jólunum. Eftir lifir sterk upplifun um að vera hluti af þorpi sem elur upp barn.

Fundi var slitið kl. 19:30

 Ruth Magnúsdóttir


Síðast uppfært 09. des 2024