Fjarfundur í zetadeild 2020.

Fundargerð 15. apríl 2020.

Fjórði fundur Z-deildar DKG veturinn 2019-2020.

Haldinn 15. apríl 2020 í gegnum Google Meet fjarfundarkerfi á tímum samkomubanns vegna COVID-19 faraldurs.

Um skipulag fundar sáu þær: Guðrún Ásgeirsdóttir, Guðmunda Vala Jónasdóttir og Margret Björk Björgvinsdóttir.

Mættar:  Guðmunda Vala Jónasdóttir, Guðrún Ásgeirsdóttir, Helga Magnea Steinsson, Jórunn Sigurbjörnsdóttir, Margret Björk Björgvinsdóttir, Ólafía Þórunn Stefánsdóttir, Ruth Magnúsdóttir, Sigríður Herdís Pálsdóttir, Steinunn Aðalsteinsdóttir og Unnur Óskarsdóttir. 

Guðrún Ásgeirsdóttir sendi fundarboð/slóð á félagagskonur sem þær opnuðu og komust með þeim hætti inn á fundinn.

Guðrún Ásgeirsdóttir setti fundinn og bauð fundagesti velkomna á fund og kveikti á kertunum.  

Fundargerð síðasta fundar er inn á svæði Z-deildar á heimasíðu DKG. Formaður minnti konur á að enn vantar myndir af nokkrum félagskonum svo hægt sé að setja mynd við nöfn félagskvenna. Ítrekaði hún fyrri ósk um að senda sér mynd. Hún mun svo fara í það að hringja í þær konur sem ekki hafa skilað inn mynd. 

Guðrún bað konur um að fara vel yfir allar upplýsingar inn á vefnum og láta sig vita ef þær eru ekki réttar, s. s breytt breytt netfang, símanúmer og þ.h.

Helga Magnea sagði frá því að Evrópunefnd DKG (sem hún á sæti í) hafi beðið hana um að skrifa grein um starfið okkar hér fyrir austan og senda í nettímarit EvrópuForum DKG https://www.dkg.is/is/utgafa-og-frettabref/euforia/2014-2016. Hún ákvað að skrifa grein um fund sem haldinn var á Stöðvarfirði 4. apríl 2018 sem var sögulegur fyrir þær sakir hvað heimferð af fundi gekk brösugleg vegna ófærðar. Mun greinin birtast í næsta blaði.

Helga Magnea sagði einnig frá því að hún situr í Félaga- og útbreiðslunefnd og hefur nefndin undanfarið verið m.a. að vinna að stofnun DKG deildar á Hornafirði. Sem verður áhugavert ekki síst fyrir okkur hér í næsta nágrenni með samstarf í huga.

Gestur fundarins var Ásthildur Kristín Garðarsdóttir grunnskólakennari og MA í jákvæðri sálfræði. Ásthildur sagði aðeins frá sjálfri sér, MA náminu sem hún tók út í Danmörku og hvernig hún vinnur með jákvæða sálfræði. Áhersla hennar er að finna leið til að vinna bug á neikvæðni með jákvæðni að leiðarljósi – seiglu/þolgæði. Hún sagði frá kenningum sem jákvæð sálfræði byggir hugmyndir sínar á. Hún ræddi um mikilvægi verktrausts, að hafa færni til að snúa neikvæðum niðurbrjótandi hugsunum í jákvæðar uppbyggjandi hugsanir. Ásthildur nefndi í þessu samhengi að rannsóknir hafa sýnt að aðeins 20% manna fæðast í eðli sínu jákvæðir og bjartsýnir, hin 80% þurfa að læra þetta með einhverjum hætti. Því sé afar mikilvægt að skólar vinni og þjálfi nemendur í jákvæðum styrkleikum þ.e. að þekkja og ýta undir jákvæða eiginleika bæði hjá sjálfum sér en ekki síður hjá öðrum. Skólar í dag eru of uppteknir að því að vinna með og þjálfa keppnis-styrkleika í stað þess að beina sjónum að þeim mjúku eins og t.d. sköpunarkraftinum og horfa meira inn á við.

Ásthildur ræddi um mikilvægi þess að við séum ekki að rífa niður, við séum yfirleitt of dómharðar sérstaklega gagnvart okkur sjálfum – sýnum kærleika og þá ekki síst okkur sjálfum.

Góðar og gagnlegar umræður fórum fram um innlegg Ásthildar sem yfirgaf svo fundinn að þeim loknum. Kom fram áhugi fundarmanna að fá Ásthildi til að halda námskeið fyrir DKG konur í haust.

Guðrún ræddi um árgjöldin en upp hafa komið vangaveltur um, hvort lækka ætti gjöldin þetta árið vegna aðstæðna í COVID faraldri. Ákveðið að Guðrún sendi fyrirspurn til landstjórnar.

Rædd voru fyrirhuguð stjórnarskipti, sem fara fram á næsta aðalfundi sem þarf að halda fyrir júní lok. Guðmunda Vala og Margret Björk eru tilbúnar að sitja áfram í stjórn en uppstillingarnefnd hefur verið falið það verkefni að gera tillögu að nýrri stjórn. Í uppstillingarnefnd eru þær Helga Magna Steinsson og Halldóra Baldursdóttir.

Fundarmönnum fannst þessi frumraun á fjarfundi ganga mjög vel og því væri ekkert því til fyrirstöðu að halda aðalfund með þessum hætti. Var ákveðið að fundurinn færi fram í byrjun júní hvort sem hann verður í gegnum google-meet eða með hefðbundnum hætti. Stjórn mun skipuleggja fundinn og auglýsa hann þegar nær dregur og línur skýrast.

Slökkt var á kertum vináttu, hjálpsemi og trúmennsku.

 

 

 

Fundi slitið 18:30.
Margret Björk Björgvinsdóttir.

 

 

 

 

 


Síðast uppfært 19. apr 2020