Fundur á Reyðarfirði 12. febrúar 2025
Fundur haldinn á Reyðarfirði í Zeta deild Delta Kappa Gamma, 12. Febrúar 2025 kl. 17:00
Mættar eru: Ólafía Stefánsdóttir, Sigríður Herdís , Jórunn Sigurbjörnsdóttir, Halldóra Baldursdóttir, Helga Guðmundsdóttir, Helga Magnea Steinsson, Hrefna Egilsdóttir, Brynja Garðarsdóttir, Guðrún Ásgeirsdóttir og Ruth Magnúsdóttir.
Fundurinn er í umsjón Jórunnar, Sigríðar Herdísar og Ólafíu.
Í upphafi fundar hittumst við hjá Esther Ösp Gunnarsdóttur sem er hönnuður og vefstjóri hjá Austurbrú á Reyðarfirði. Í hjáverkum er hún að gera ýmislegt úr leir sem okkur þótti forvitnilegt að kynnast. Hún segist sinna leirvinnuverkum á kvöldin og um helgar í bílskúrnum hjá sér. Esther Ösp heldur úti síðum á Instagram og á Facebook þar sem hún kynnir vörur sínar. Esther Ösp segir að oft myndist baðstofustemning í bílskúrnum er börnin hennar tvö eru oft með henni að föndra eða gera hluti úr leir. Eiginmaðurinn situr oft við trommuleik með aðrir í fjölskyldunni föndra. Virkilega gaman að koma í bílskúrinn til Estherar Aspar.
Eftir þessa heimsókn fórum við í Golfskálann á Reyðarfirði og héldum fund. Halldóra kveikti á kertunum um vináttuna, trúmennskunar og hjálpseminnar. Jórunn las fyrir okkur markmið Delta Kappa Gamma. Sigríður Herdís var með orð til umhugsunar. Hún talaði út frá orðunum birta getur í dagsljós breytt. Henni var hugsað til fólks á öldrunarheimililum sem fá ekki oft heimsóknir. Hún sagði okkur frá eldri konu sem hún spjallaði oft við í heimsóknum sínum á öldrunarheimili. Konan hafði að orði við Siggu Dís að sér fyndist hún vera eins og sólargeisli og hlakkaði ævinlega til að hitta hana. Einnig talaði hún um mikilvægi þess að geta náð til sem flestra og í því samhengi sagði hún frá því að í starfi sínu sem leikskólastjóri hafi hún einsett sér að kynnast öllum börnunum í skólanum og sagðist oft uppskera faðmlag utan skólans sem væri henni og börnunum dýrmætt.
Ólafía sagði frá því að Árný landsambandsforseti hefði haft samband og sendir okkur kveðjur sínar. Hún bað fyrir sérstakar kveðjur til Guðmundu Völu, Sigríðar Herdísar og Guðrúnar og sagðist vera þakklát fyrir þeirra starf í útgáfunefndinni. Árný sagðist langa til að koma til okkar á fund. Ræddum um að fá hana í heimsókn í apríl. Ólafía minnti á afmælisfundinn 10. Maí en ekki hefur borist dagskrá fyrir þá daga. Einnig minnti hún á Ráðstefnudaga í Brighton í júlí. Ræddum um að reyna að fjölga í deildinni okkar. Hver og ein ætlar að hugsa um hvaða konur við gætum boðið í deildina.
Eftir fundinn sátum við og spjölluðum létt og borðuðum góða kjúklingasúpu með brauði sem Fjarðaveitingar sáu um. Fundi slitið kl. 19:00
Ólafía tók saman
Síðast uppfært 24. feb 2025