Fundargerð nóvember 2020.
Fundur í Z-deild DKG haldinn 04.11. 2020 á TEAMS á netinu. Fundurinn var í umsjá Guðrúnar Ásgeirsdóttur og Helgu Magneu Steinsson.
Mættar voru:
Steinunn Aðalsteinsdóttir, Björg Þorvaldsdóttir, Halldóra Baldursdóttir, Ólafía Stefánsdóttir, Unnur Óskarsdóttir, Guðrún Ásgeirsdóttir, Jórunn Sigurbjörnsdóttir, Helga Guðmundsdóttir, Margret Björk Björgvinsdóttir, Harpa Höskuldsdóttir, Helga Magnea Steinsson, Hrefna Egilsdóttir, Ruth Magnúsdóttir og Sigríður Herdís Pálsdóttir.
Margret setti fund og bauð konur velkomnar og kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi. Helga Magnea las markmið félagsins.
Margret las fundargerð síðasta fundar.
Guðrún var með orð til umhugsunar en hún sagði okkur frá ljóðabók eftir unga skáldkonu frá Reyðarfirði, Steinunni Dagmar Björgvinsdóttur. Bókin heitir Hugarheimur skúffuskálds og er gefin út 2019 og er kaflaskipt eftir litum. Guðrún las úr appelsínugula hluta hennar sem heitir Árið 2064 og fjallar um vangaveltur barns og afa þess um ábyrgð á verndun jarðarinnar. Bókina má finna hér á þessari netslóð:
https://www.va.is/static/files/Vor2019/Lokaverkefni/steinunn-dagmar-bjorgvinsdottir.pdf
Gestur fundarins var Bryndís Fiona Ford skólameistari Hallormsstaðaskóla. Hún sagði frá tilurð skólans sem var stofnaður sem Húsmæðraskólinn á Hallormsstað 1929 af Sigrúnu og Benedikt Blöndal. Skólinn var settur í fyrsta sinn 1. nóvember 1930 og fagnar því 90 ára afmæli í ár. Hlutverk skólans hefur verið að þróast í gegnum árin en hann gegndi því mikilvæga hlutverki framan af að undirbúa konur fyrir það mikilvæga hlutverk sitt sem húsmæður þessa lands. Miklar vangaveltur hafa verið uppi um hlutverk þeirra í seinni tíð og samkeppni um nemendur var orðin töluverð. Því var Húsmæðraskólinn á Hallormsstað orðin frekar týndur og rekstur hans þungur. Eftir 2017 hefur verið unnið endurskipulagningu skólans og í dag er hann drifinn áfram með nýsköpun að leiðarljósi sem lykill að framtíðinni. Hugsunin er að námið sem þar fer fram tengi saman fortíð, nútíð og framtíð. Námið felur í sér fræði, fagmennsku og framkvæmd það er því bæði akademískt og verklegt, í skólanum læra nemendur gamalt handverk og aðferðir til matargerðar með sjálfbærni hugsun sem leiðarstef. Skapa eitthvað nýtt en um leið halda í það gamla sem er í hættu á að glatast ef ekkert verði að gert. Skólinn telur sig því auk nýsköpunar gegna því mikilvæga hlutverki að vernda menningararfleifð í handverki og matargerð. Skólinn er ekki lengur á framhaldsskólastigi líkt og hann var áður því í dag telst hann vera á háskólastigi og útskrifar nemendur með diplóma gráðu. Nemendur koma víðsvegar að og nokkuð er um erlenda nemendur sem vilja nema í Hallormsstaðaskóla. Skólinn er vel staðsettur eins og nafnið gefur til kynna í hjarta Hallormsstaðaskógar 27 km frá Egilsstöðum. Hann er starfræktur í skólahúsinu sem byggt var 1929-30 en Minjastofnun Íslands friðaði það 1916.
Opið var fyrir umræður að erindi Bryndísar loknu og tóku nokkrar konur til máls. Þar kom m.a. fram hjá Helgu Guðmundsdóttur að Z-deild tengist Hallormsstaðaskóla að því leyti til að þar var deildin endurvakin fyrir 10 árum síðan. Rætt var um að stefna á það að heimsækja skólann í vor ef aðstæður í samfélaginu leyfa.
Ruth sagði skemmtilega sögu af ömmu sinni sem var nemi í Húsmæðraskólanum á Hallormsstað á sínum tíma og í kjölfarið voru rifjaðar upp sögur sem fundamenn þekktu frá þeim tíma sem skólinn var rekin sem hefðbundin húsmæðraskóli.
Fleira var ekki rætt á fundinum og slökkti Margret á kertunum þremur og sleit fundi 18:30
Ritari: Margret B. Björgvinsdóttir
Síðast uppfært 03. des 2020