4. apríl 2018

5. fundur Zeta deildar DKG veturinn 2017-2018 var haldinn þann 4. apríl í Steinasafni Petru á Stöðvarfirði.

Í umsjá Steinunnar, Helgu og Hildar Völu.

Mættar: Helga St., Harpa, Steinunn, Sigga Dís, Guðrún, Ruth, Petra og Halldóra. Unnur Sveinsdóttir, barnabarn Petru tók á móti okkur á safninu.

Helga setti fundinn og bauð konur velkomnar, þakkaði Unni fyrir að taka á móti okkur á þessu flotta safni sem var alla tíð heimili ömmu hennar.

Hún kveikti síðan á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi. Hún greindi frá nýjum gjaldkera deildarinnar, sem er Harpa Höskuldsdóttir.

Petra las markmið félagsins.

Steinunn flutti orð til umhugsunar. Þar sagði hún frá upplifun sinni þegar snjóflóðin í Neskaupstað féllu árið 1974. Ástæðan fyrir þessari upprifjun var m.a. myndin Háski sem var nýverið sýnd og einnig að tvö af barnabörnum Steinunnar höfðu valið að gera verkefni um snjóflóðin í framhaldsskóla og hafði hún rifjað þetta upp með þeim. Í þá daga var ekkert um áfallahjálp og lítið sem ekkert rætt um þessi mál. Tólf manns fórust í flóðinu þar á meðal faðir Steinunnar og móðurbróðir. Hún sagði frá sinni lífsreynslu þennan dag og ræddi einnig þá erfiðu tíma sem á eftir komu. Jarðarför þeirra sem fórust fór fram í Félagsheimilinu, þar sem 12 kistur stóðu. Hún kvaðst muna lítið eftir þeirri athöfn. Allan þennan vetur voru slæm veður og mikill snjór, þannig að hann varð mjög erfiður. Hún ræddi einnig hve mikið öryggi snjóflóðavarnargarðarnir, sem nú hafa risið ofan við bæinn, veita íbúum í dag.

Nokkrar umræður urðu í framhaldinu og þökkuðu konur Steinunni fyrir að deila þessari erfiðu reynslu með okkur.

Þá fékk Unnur Sveinsdóttir orðið og sagði okkur frá ömmu sinni og nöfnu, og tilurð safnsins sem við vorum á. Amma hennar safnaði steinum frá unga aldri og ýmsu öðu líka. Árið 1946 fluttu hún og fjölskyldan í núverandi húsnæði og þá fyrst fengu steinarnir og aðrir hlutir samastað. Smátt og smátt jókst umfangið og er í dag eitt stærsta steinasafn á Íslandi. Petra varð ekkja 1974 en hélt ótrauð áfram söfnun eftir lát eiginmannsins. Hún bjó í húsinu/safninu allt til ársins 2007 þegar hún flutti á hjúkrunarheimilið Uppsali, en kom lengi vel daglega á safnið. Börn hennar og barnabörn hafa sinnt safninu undanfarin ár. Petra dó árið 2012, 89 ára gömul. Safnið er mjög áhugavert og einstaklega persónulegt og það sækja í dag þúsundir ferðamanna.

Helga þakkaði Unni fyrir einstaklega áhugaverða frásögn og afhenti henni rauða rós. Hún sleit síðan fundi og slökkti á kertunum þremur.

Þá var haldið á Brekkuna þar sem snædd var dýrindis kjúklingasúpa. Umræðum var haldið áfram og m.a. rætt um Vorþingið og verkaskiptingu þar.

Halldóra Baldursdóttir, ritari.

 


Síðast uppfært 12. apr 2018