Fundargerð 28. nóvember 2022.

Mánudagur 28. nóvember 2022

Fundur Z-deildar sem vera átti síðastliðinn miðvikudag 23. nóvember, en fresta þurfti vegna veðurs og ófærðar yfir Fjarðarheiði þann dag. Er nú haldinn í Seyðisfjarðarskóla á kaffistofu starfsfólks kl. 17:00 – 19:00

Fundinn sitja Hrefna Egilsdóttir, Jórunn Sigurbjörnsdóttir, Ólafía Þórunn Stefánsdóttir, Rut Magnúsdóttir, Steinunn Lilja Aðalsteinsdóttir, Sigríður Herdís Pálsdóttir og Unnur Óskarsdóttir.

Dagskrá fundarins og gerðir.

Gestirnir okkar að þessu sinni hófu fundinn, það eru þeir Lasse Högenhof og Jónatan Spejlborg Juelsbo, ásamt 6 mánaða gamalli dóttur Jónatans. Báðir núverandi kennarar í LUNGA-skólanum sem er lýðskóli á Seyðisfirði. Þeir félagar hafa starfað við skólann frá stofnun hans árið 2014 þegar þeir ásamt vinkonu þeirra Seyðfirðingnum Björt Sigfinnsdóttur og fleirum hófu umræðu um að LUNGA, listahátíð ungs fólks á Austurlandi ætti erindi við fleiri og í formi lengri námskeiða. Upp úr því varð til listaskóli, þar sem ungt fólk á aldrinum 18 til 25 og eldri gátu sótt tvisvar sinnum átta vikna annir í listaskóla sem var fyrst og fremst til staðar með nemendur hverrar annar í huga og þeirra listsköpun. Þeir félagar hafa verið í stjórn skólans og stefnumótun frá upphafi, haldið utan um að leiða það sem þarf að gera til að listaskólinn mætti halda áfram. Öll árin hefur verið frá 20 til 26 nemendur hverja önn og eru það ungmenni alls staðar að úr heiminum sem sækja skólann. Við áttum langt og gott spjall við þá félaga um hvernig og hvað þarf að gera til að setja skóla sem þennan af stað og einnig reka hann, eru þeir sammála um að það hefði ekki verið hægt nema með einstökum stuðningi heimafólks alla tíð. Það sem svo er gaman er að nú er skólinn að breyta aðeins um stefnu og bæta við. Það verður frá og með næsta hausti 2023 boðið upp á tvær brautir, áfram verður áhersla á list og svo bætist við land, þar sem fókusinn verður á náttúru, sjálfbærni, fjöllin, fjörðinn og nánasta umhverfi. Jónatan og Lasse fá mikla og góða þökk fyrir sína kynningu en þeir hlupu í skarðið fyrir Björt Sigfinnsdóttur sem hafði ætlað að vera með okkur þessa stund. Þeir félagar voru leystir út með rósum og kærum þökkum.

Eftir þessa góðu kynningu kveikti undirrituð Unnur Óskarsd á kertum og las markmið félagsins.

Þá tók til máls með orð til umhugsunar Ólafía Þórunn Stefánsdóttir sem hún kallaði fánýtan fróðleik, en hún las fyrir okkur mjög svo fróðlega grein um tilurð og upphaf jólakortsins, sem hún svo setti inn á hópinn okkar á facebook öðrum félögum til ánægju einnig. Takk Ólafía.

Þá bauð undirrituð upp á umræður, eða ýmiss önnur mál og meðal þess sem við ræddur var.

Þarf að prenta út og setja í fundargerðabók z-deildar fundargerðir eins og þessa? Niðurstaða okkar var sú að það er rétt að gera það svo skila megi síðar inn á safn því sem tilheyrir deildinni. Sama er að segja um fundi stjórnar hvert sinn, betra er að skrá það einnig og prenta út í bókina.

Þá sagði undirrituð frá styrjum og fór yfir þá sjóði sem félagskonur geta sótt í.

Eins ræddum við Landsfund sem verður fyrstu helgina í maí 2023 Í Hveragerði og að gaman væri að við gætum fjölmennt þangað í vor.

Þá barst til tals kynning félagsins og nýir félagar, sem eru velkomnir á alla fundi í vetur og munum við þegar það gerist kynna félagið lítillega. Og síðan verður inntökufundur sérstakur í vor.

Við erum sammála um að mjög gaman er að hittast aftur eftir þetta langa fjarfundatímabil sem loksins er liðið. Þá er skemmst frá því að segja að undirrituð var ekki meðvituð um að fundur og súpuskál ættu bara að taka tvo klukkutíma og hafði því boðað dömurnar í súpu í Skaftfell bistro kl 19:00 en fundarkonur skildu ekkert í hvaða rólegheit þetta væru í fundarstjóra. Eftir að fundi var slitið með því að slökkt var á kertum héldum við í Skaftfell í dásamlega súpu, nýbakað súrdeigsbrauð, himneskan hummus og hvítlauksflatböku. Fundinn ritaði Unnur Óskarsdóttir formaður z-deildar. 


Síðast uppfært 06. des 2022