Fundargerð desember 2020.

Fundur í Z-deild DKG haldinn 10.12. 2020 kl 17 á TEAMS á netinu. Fundurinn var í umsjá Bjargar Þorvaldsdóttur, Halldóru Baldursdóttur og Petru Vignisdóttur Mættar voru:

Steinunn Aðalsteinsdóttir, Ólafía Stefánsdóttir, Unnur Óskarsdóttir, Jórunn Sigurbjörnsdóttir, Helga Guðmundsdóttir, Margret Björk Björgvinsdóttir, Hrefna Egilsdóttir, Ruth Magnúsdóttir og Brynja Garðasdóttir.

G. Vala setti fund og bauð konur velkomnar og las markmið félagsins. Petra kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.

Margret las fundargerð síðasta fundar. Ein athugasemd var gerð er varðar tengsl Hallormsstaðaskóla og Z deildar sem verður lagfært í fundargerðinni.

 

Gestur fundarins var Benný Sif Ísleifsdóttir, rithöfundur og þjóðfræðingur með meiru. Benný Sif er frá Eskifirði en á ættir að rekja vestur á firði. Hún hefur numið hagnýta íslensku og er með MA gráðu í þjóðfræði. Hún hefur skrifað fyrir börn bækurnar Jólasveinarannsóknin og Álfarannsóknin þar sem hún fléttar saman fróðleik og gamni. Gríma fyrsta skáldsaga hennar fyrir fullorðna kom út 2018, saga sem gerist í sjávarþorpi á Austurlandi um og eftir miðja tuttugustu öldina. Skáldsagan Hansdætur eftir Benný Sif kom út núna í ár en sögusvið hennar er vestfirskt sjávarpláss. Sagan gerist í upphafi tuttugustu aldarinnar um bókina segir að hún sé áhrifamikil örlagasaga úr íslenskum veruleika. Aðal sögupersóna bókarinn heitir Gratíana en hún þráir breytta tíma og betra líf. Benný Sif las kafla úr bókinni og sagði svo að hún sjái líkindi með Gratíönu og DKG þ.e. að þegar hún heyrði markmiðin lesin fann hún að þau gætu verið lýsing á sögupersónunni Gratíönu sem henni má lýsa sem fræðara, hún vill efla konur og hún stuðla að umbótum þeim til handa. En hún nefndi líka að þetta sé og hafi verið eðlikvenna í umhyggjuhagkerfi sem þær hafa skapað.

Umræður sköpuðust um bókina og Benný var m.a. spurð út í fyrirmyndir að persónunni Gratíönu og nafnið. Nafnið er að sögn Bennýar gamalt vestfirskt nafn sem er við það að hverfa en fyrir vestan voru konur gjarnan nefndar nöfnum sem höfðu þessa endingu. Fyrirmyndina sækir hún m.a. til forfeðra/mæðra sinna. Þá nefnir hún sérstaklega Jón Ólafsson (1850-1916) ritstjóra og ævintýramann frá Kolfreyjustað í Fáskrúðsfirði. Hann tókst oft á við samtíðarmenn sína og þurfti allavega tvisvar að flýja land út af ritdeilum sem hann lenti í við stjórnvöld. Hann þótti með eindæmum hvassyrtur og hikaði ekki við að sendi mönnum tóninn. Í eitt skiptið sem hann flúði land út af ritdeilum flutti hann til Ameríku þar var hann í samskiptum við Grant forseta og var m.a. í samningaviðræðum um að fá úthlutað landi fyrir íslendinga þar sem hann vildi helst flytja þá til Amerkíku. Þessi Jón átti bróðir sem við þekkjum líklega betur en það var Páll Ólafsson skáld.

Benný Sif yfirgaf fundinn eftir að henni hafði verið þakkað fyrir og Björg bauðst að færa henni rósir við tækifæri frá okkur.

Björg var með orð til umhugsunar en hún las ljóðið Jól eftir Stefán frá Hvítadal.

Fundarkonur sögðu hver og ein frá fallegum æskuminningum um jól bernskunnar. Voru epli og eplalykt þar ofarlega í frásögnum svo og hátíðleikinn og leyndin yfir öllu. Sagt var frá ýmsu góðgæti sem barst eftir ýmsum leiðum inn á heimilin m.a. með sjómönnum eftir siglingar til útlanda og eftir krókaleiðum frá herstöðinni í Keflavík. Kærleikur og umhyggja var líka ofarlega í frásögnunum.

Fundi var slitið kl 18:30


Síðast uppfært 05. jan 2021