Grein í Austurlandi, eftir Helgu M. Steinsson.
Vorþing DKG á Austurlandi
Sköpun, gróska og gleði var yfirskrift vorþings alþjóðlegra samtaka kvenna í fræðslustörfum DKG sem haldið var á Egilsstöðum í byrjun maí. Fyrirlesarar á þinginu voru austfirskar konur í lykilstöðum innan fyrirtækja og stofnana sem tengjast menntun og menningu.
Fróðleg erindi
Signý Ormarsdóttir yfirverkefnastjóri hjá Austurbrú reið á vaðið og fór yfir áherslur og þróun menningarmála á Austurlandi og gerði góða grein fyrir hinu gróskumikla starfi sem á sér stað vítt og breitt um fjórðunginn. Aðalheiður Borgþórsdóttir hjá Lungaskólanum á Seyðisfirði gerði grein fyrir stofnun og þróun Lungaskólans sem varð til í kjölfar Lungahátíðarinnar sem upphaflega var sett á laggirnar til að glæða áhuga og örva löngun ungs fólks á Austurlandi fyrir sköpun og menningarstarfi. Ólöf Björk Bragadóttir myndlistarkona og verkefnastjóri listabrautar Menntaskólans á Egilsstöðum hélt fróðlegt erindi um störf sín sem myndlistarkona og kennari. Mörg tækifæri liggja til framþróunar á sviði lista- og menningar þar sem margs konar skapandi greinar skipa stöðugt veigameiri sess í atvinnulífinu. Þær Lilja Guðný Jóhannesdóttir og Svanlaug Aðalsteinsdóttir frá Verkmenntaskóla Austurlands fluttu fróðleg erindi um störf sín innan skólans. Lilja hefur þróað Fab Lab kennslu fyrir nemendur og almenning en FabLab er stytting á enska heitinu ,,fabrication laboratory” og er stundum kölluð stafræn smiðja á íslensku. Hér er um nýsköpun í framhaldsskólastarfi að ræða sem býður upp á fjölbreytt viðfangsefni og skapandi hugsun. Svanlaug er verkefnastjóri Listaakademíu skólans sem ætluð er nemendum sem vilja kynnast list á sem fjölbreyttasta máta, þó með aðaláherslu á leiklist. Unnið er m.a. með framsögn, framkomu, tjáningu, listsköpun, samvinnu og tónlist.
Þau erindi sem flutt voru á vorþingi DKG endurspegla aðeins brot af þeirri sköpun og grósku sem á sér stað á Austurlandi. Dagskráin var krydduð með tónlist og upplestri nemenda í Egilsstaðaskóla. Þingið sóttu á sjötta tug kvenna alls staðar af landinu og voru þingkonur mjög glaðar og þakklátar fyrir gott og fróðlegt þing.
Hvað er DKG ?
Delta Kappa Gamma félagsskapurinn stendur m.a. fyrir ráðstefnum og fræðsluþingum hérlendis sem erlendis, auk þess að veita konum styrk til framhaldsnáms. Á Íslandi starfa þrettán deildir með u.þ.b. 332 félagskonum. Fimm eru á höfuðborgarsvæðinu og ein í hverjum landshluta nema á Norðurlandi þar sem þær eru tvær. Deildirnar starfa sjálfstætt og halda a.m.k. fjóra fundi á ári. Félagskonur starfa eða tengjast allar fræðslugeiranum innan stofnana og fyrirtækja og endurspegla hin fjölbreyttu fræðslustörf.
Deildastarfið
Austurlandsdeildin Zeta stóð fyrir þessu fræðsluþingi í ár ásamt menntamálanefnd DKG. Deildirnar velja sér verkefni eftir áhuga og þörfum félaga í deildinni en dæmi um viðfangsefni deildanna má m.a. nefna útgáfu bóka, bæklinga og veggspjalda, blaðaskrif um mennta- og menningarmál, fræðsluerindi um það sem er efst á baugi í fræðslu- og menningarmálum og/eða tengd verkefnum deilda. Skoðun og umfjöllun um frumvörp til laga og áhersla lögð á að hafa áhrif á löggjöf. Skoðun og umfjöllun um nýjar námskrár hverju sinni og önnur skólamál og unnið að gagnkvæmum kynnum milli skólastiga og fræðslustofnana. Heimsóknir á ýmsar stofnanir og á menningarviðburði, bókmenntaumræða, land- og náttúruskoðun.
Helga Magnea Steinsson Zetadeild