Fyrsti fundur í zetadeild haustið 2020
Fyrsti fundur í Z-deild DKG veturinn 2020 – 2021 var haldinn 28.09. 2020 í Seyðisfjarðarskóla. Fundurinn var í umsjá Sigríðar Herdísar Pálsdóttir, Ólafíu Stefánsdóttur og Unnar Óskarsdóttur. Gestur á fundinum var Diljá Jónsdóttir. hún sagði okkur frá kínverskum nálastungum sem hún hefur verið að læra. Diljá segir að það séu margar ólíkar aðferðir og skoðanir í gangi um óhefðbundnar læknisaðferðir eins og nálastungur. Hún hefur stundað námið í þrjú ár en segist rétt vera að byrja.
Ólafía var með orð til umhugsunar. Hún sagði okkur frá Vilborgu Dagbjartsdóttur sem fædd er á Vestdalseyri við Seyðisfjörð 1930. Hún er níunda í röðinni af tólf systkinum. Á þeim tíma sem hún er að alast upp geisuðu berklar og 1941 dóu þrjár systur hennar úr þessum skæða sjúkdómi. Skólinn á Vestdalseyri var lagður niður sama ár og þurfti Vilborg því að búa sig undir að ganga í skólann inn í þorpi. Um haustið gekk hún af stað í skólann, full tilhlökkunar í nýjum kjól en þegar hún kom á skólatröppurnar tók skólastjórinn á móti henni og meinaði henni inngöngu, í skólann kæmi engin frá hennar heimili þar sem farsóttin hafði tekið sinn toll. Ólafía segist oft vera hugsað til Vilborgar og hennar örlaga sem barns, ekki síst upp á síðkastið þegar við tökumst á við nýja farsótt, Covid19.
Að loknum fundi borðuðum við saman á Skaftfelli.