Fjarfundur í nóvember 2020
Fundur í Z-deild DKG haldinn 04.11. 2020 á TEAMS á netinu.
Á fundinn mættu 15 félagskonur. Gestur á fundinum var Bryndís Fiona Fond, skólameistari Hallormsstaðaskóla.
Bryndís sagði frá tilurð skólans sem var stofnaður sem Húsmæðraskólinn á Hallormsstað 1929 af Sigrúnu og Benedikt Blöndal. Skólinn var settur í fyrsta sinn 1. nóvember 1930 og fagnar því 90 ára afmæli í ár. Hlutverk skólans hefur verið að þróast í gegnum árin en hann gegndi því mikilvæga hlutverki framan af að undirbúa konur fyrir hlutverk sitt sem húsmæður þessa lands. Eftir 2017 hefur verið unnið að endurskipulagningu skólans og í dag er hann drifinn áfram með nýsköpun að leiðarljósi sem lykill að framtíðinni.
Hugsunin er að námið sem þar fer fram tengi saman fortíð, nútíð og framtíð. Námið felur í sér fræði, fagmennsku og framkvæmd það er því bæði akademískt og verklegt og er skólinn ekki lengur á framhaldsskólastigi líkt og hann var áður heldur er hann á háskólastigi og útskrifar nemendur með diplóma gráðu.