Frá síðasta fundi - sjá einnig myndir á myndasíðu
23.03.2009
Fundurinn okkar 21. mars tókst hið besta og það voru ánægðar konur sem héldu heimleiðis frá Neskaupstað í
blíðviðri eftir hádegið.
Við hófum fundinn í Jósafatshúsi þar sem Magni Kristjánsson leiddi okkur um söfnin þrjú, Málverkasafn Tryggva
Ólafssonar, Sjóminja- og smiðjusafnið og Náttúrugripasafnið. Magni sagði skemmtilega frá og við nutum hverrar stundar.
Eftir um fjörtíu mínútna safnaskoðun héldum við yfir í Egilsbúð og þar flutti Björg Þorvaldsdóttir orð til
umhugsunar þar sem hún fjallaði um þrjár bækur sem hún hefur á náttborðinu sínu um þessar mundir en allar tengjast
þær ferðalögum á einhvern hátt.
Við ræddum ýmis félagsmál og meðal annars Landsþing samtakanna sem haldið verður á Hallormsstað 16. - 17. maí næstkomandi.
Upplýsingar um skráningu og fleira varðandi þingið má sjá á slóðinni:http://dkg.muna.is/is/moya/page/landsambandsthing_2009
Jarþrúður og Helga Magnúsdóttir stjórnuðu inntökuathöfn þegar þær Guðrún Ármannsdóttir og Hildur
Magnúsdóttir voru teknar inn í deildina.
Elfar Jónsson sem stýrir Mýrinni deild úr Nesskóla sem ætluð er nemendum með sérstakar þarfir sagði okkur frá starfinu
þar.
Þennan dag var yndislegt veður og ekkert hægt að kvarta yfir færð. Hins vegar voru 9 félagskonur fjarverandi vegna ýmissa ástæðna.
Næsti fundur verður haldinn á Egilsstöðum mánudaginn 27. apríl kl. 18.00.
Jarþrúður Ólafsdóttir