Skýrsla Þetadeildar 2006–2007

Skýrsla stjórnar 2006–2007

Stjórn Þetadeildarinnar í ár skipuðu Þórunn Friðriksdóttir, Lára Guðmundsdóttir, Guðríður Helgadóttir og Bjarnfríður Jónsdóttir. Guðbjörg Sveinsdóttir er gjaldkeri deildarinnar.

Það er svo lítið gaman að segja frá því að ein af okkur, Oddný Harðardóttir, tók við nýju embætti á árinu og varð bæjarstjóri í Garðinum eftir sveitarstjórnarkosningarnar síðastliðið vor. Á fyrsta fundinum okkar sem haldinn var í Njarðvíkurskóla sagði hún frá aðdragandanum að því að hún fór í framboð og frá fyrstu mánuðunum í nýju starfi.

Það er að verða að venju hjá okkur að borða saman jólamat og að þessu sinni fengum við til okkar Ægi Sigurðsson, kennara í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, til að segja okkur frá jarðfærði Reykjanesskagans, sem var bæði fróðlegt og skemmtilegt því þótt við búum hérna á skaganum erum við ekkert að velta þessum hlutum fyrir okkur dags daglega.

Eftir áramót héldum við ómissandi bókafund en það er eini fundurinn sem við höldum í heimahúsi, aðra höldum við til skiptis á vinnustöðum hvorrar annarrar eða úti í bæ, jafnvel utanbæjar eins og síðasta fundinn okkar nú í vor þegar ferðinni var heitið í Alþjóðahúsið í Reykjavík. Á bókafundinum segjum við hver annarri frá bókum sem við höfum verið að lesa undanfarið sem svo síðan leiða til umræðu í allar áttir.

Eins og áður sagði lukum við starfseminni í vor með heimsókn í Alþjóðahúsið þar sem við fræddumst um starfsemina en síðast en ekki síst upplifðum við stemminguna sem var þar. Sterkast fannst okkur að finna þann áhuga og eldmóð sem var í fólkinu sem starfaði þar.

Orð til umhugsunar hafa alltaf verið á dagskrá fundanna hjá okkur og hefur víða borið niður. Sem dæmi um fjölbreytileika þess sem þar kemur fram þá lýsti ein fyrir okkur því sem hún kallaði mærablessun eða Baby Shower að amerískum sið þar sem beðið er fyrir ófæddu barni og gestir koma með pínulitið á kaffiborðið og pakka. Þessi umræða var hluti af umræðu um innflytjendur sem hún hafði valið sér til umræðu.

Að jafnaði hafa 12-16 konur mætt á fundina í vetur. Einhverjar hafa verið í fríi vegna anna en aðrar hafa hætt. Við höfum boðið konum í heimsókn á einstaka fundi til að kynna þeim deildina og stefnt er að því að bjóða þeim og taka þær formlega inn i haust.

Bjarnfríður Jónsdóttir
ritari


Síðast uppfært 12. maí 2017