26. nóvember 2008
2. fundur vetrarins var haldinn miðvikudaginn 26. nóvember að Faxabraut 62 og var það jafnframt afmælisfundur í tilefni af tíu ára afmæli Þetadeildar.
Formaður deildarinnar, Valgerður Guðmundsdóttir, setti fund og bauð gesti velkomna. Hún kveikti á kertunum þremur og rakti síðan sögu Þetadeildarinnar í stuttu máli.
Hulda Björk las fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt. Síðan var nafnakall. 21 félagi var mættur ásamt fjórum gestum, Ásu Einarsdóttur, Geirþrúði Bogadóttur og frá landssambandsstjórn Delta Kappa Gamma þær Guðný Helgadóttir og Ingjbörg Einarsdóttir.
Bryndís Björk Guðmundsdóttir flutti orð til umhugsunar og ræddi um menntun. Hún sagði frá ráðstefnu sem hún sótti nýlega þar sem m.a. var rætt um að í ljósi efnahagsástandsins mættum við ekki ala upp hrædda kynslóð eða missa menntað fólk úr landi (spekileki). Bryndís las að lokum smásögu eftir ungan dreng sem hefur gengið í gegnum krabbameinsmeðferð.
Þá var komið að meginþema fundarins sem var tónlist. Ungur nemandi úr Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, Sóley Bjarnadóttir, lék lagið Tarantella á píanó, en Sóley var að taka grunnpróf í píanóleik fyrr um daginn.
Eftir að hafa gætt sér á mörgum og freistandi réttum á veisluborðinu var dagskránni haldið áfram.
Guðný Helgadóttir ávarpaði fundinn, flutti kveðjur frá landssambandsformanni sem ekki átti að heiman gengt og færði deildinni hamingjuóskir með áfangann. Hún ræddi um ánægjulegan og þroskandi félagsskap Delta Kappa Gamma samtakanna í góðum hópi kvenna. Guðný vakti máls á gildi þess að taka þátt í alþjóðasamstarfinu, þar kemur vel i ljós hve öflugt starfið er á Íslandi. Hun minnti á Landssambandsþingið sem haldið verður 16. maí n.k. í Hallormsstað og hvatti Þetasystur til að fjölmenna. Hún minnti einnig á Evrópuþingið sem haldið verður í Osló í sumar.
Ingibjörg Einarsdóttir ávarpaði einnig fundinn og rifjaði upp stofnun Þetadeildarinnar, en þá var hún í útbreiðslunefnd. Hún afhenti nýtt félagatal, minnti á bókina sem samtökin gáfu út á síðasta ári og minnti á handbók deildarinnar. Ingibjörg færði formanni Þetadeildar rós í tilefni dagsins.
Þá var haldið áfram með þema fundarins, tónlistina og aðalræðumaður kvöldsins tók við en það var Karen Sturlaugsson. Karen ræddi um gildi tónlistar í samfélaginu, sagði frá rannsóknum á árangri tónlistarnemenda í öðru námi en þeir standa sig yfirleitt mjög vel þar. Karen sagði frá tónlistaruppeldi sínu og starfssviði. Hún sagði svo að lokum frá ferð lúðrasveitar Tónlistarskólans til Bandaríkjanna þar sem bæði var spilað í Disney World, á heimavelli Orlando Magic körfuboltaliðsins og í Kennedy Space Center. Karen sagði að þó mikil vinna fari í að undirbúa slíkar ferðir, þessi ferð var þrjú ár í undirbúningi, þá sé ávinningurinn mikill því nemendum fer mikið fram og ráða við flóknari verkefni fyrir utan lífsreynsluna sem þau fá.
Að loknum eftirrétti var fyrrverandi formönnum afhentar rósir, Steinunn flutti tvö ljóð (sem fylgja fyrir aftan fundargerðina) og Hulda Björk opnaði formlega vef deildarinnar og kynnti hann fyrir félagskonum.
Fundinum lauk svo með að sunginn var Delta Kappa Gamma söngurinn eftir Herdísi Egilsdóttur við undirleik Geirþrúðar Bogadóttur.
Hulda Björk Þorkelsdóttir
ritaði fundargerð
Fundargerðin samþykkt á fundi 13. janúar 2009.
Í tilefni 10 ára afmælis Þeta-deildar í Keflavík 26. nóv. 2008:
Í fyrstu þá er myndhverfing þeirra stofnendasystra Þeta-deildar svona:
Dömur svipast, deildin skipast,
djörfum konum, fram.
Pilsin lyftust, peysur sviptust,
perlsinn tekinn, -> þramm!
(Steinunn Njálsdóttir)
Ljóð til umhugsunar:
Ég vakna þennan morgun og vel að hann sé góður
vel að hann sé yndislegur, myrkur og hljóður
ég vel að kúra um stund og staðnæmast við það
hve stórkostlegt sé lífið ef fátt amar að.
Ég ákveð því að velja að vandamálin fá
vistuð séu hjá mér til þess eins að ljá
tilverunni ennþá fleiri tilbrigði og fleti
ég tek þeim opnum örmum svo nýtt mér þau ég geti.
Og eftir litla stund ég vel að fara á fætur
faðma þennan morgun og allar hans rætur
hita mér gott kaffi af kærleik þess ég nýt
kex smyr með osti í blöðin svo ég lít.
Að endingu ég segi við þig sem þetta lest
þetta er góður dagur, hafðu það sem best
ég óska þess að hugsanir fallegar þig finni
ég faðmlag þér sendi og kveð þig að sinni.
(Höf: ókunnur)
Síðast uppfært 18. apr 2009