28. nóvember 2009

2. fundur starfsársins 2009-2010 í Þetadeild DKG var haldinn að Borgarvegi 8, heimili Guðbjargar Sveinsdóttur,  laugardaginn 28. nóvember 2009 kl. 11-13 og var hann jóla- og inntökufundur.

 

Formaður deildarinnar, Valgerður Guðmundsdóttir setti fund og bauð fundargesti velkomna, hún fól gestgjafanum okkar, Guðbjörgu Sveinsdóttur, að tendra kertaljósin þrjú, tákn vináttu, trúmennsku og hjálpsemi. Valgerður bauð síðan gesti fundarins, þær Ingibjörgu Jónasdóttur, landssambandsforseta, Herthu W. Jónsdóttur úr Gammadeild og Fanneyju Halldórsdóttur, skólastjóra Grunnskólans í Sandgerði,  hjartanlega velkomnar. Fanney var mætt á sinn fyrsta kynningarfund.

 

Dagskrá fundarins hófst með nafnakalli og voru 19 félagar mættir. Ritari flutti kveðju frá Steinunni Njálsdóttur. Fundargerð síðasta fundar var ekki lesin í þetta sinn en vísað á hana á vef deildarinnar og verður hún afgreidd á næsta fundi. Ritari benti einnig á nýbreytni á vefnum og hvatti félaga til að kynna sér hana og láta í ljósi skoðun sína á henni.

 

Gyða Arnmundsdóttir flutti orð til umhugsunar og sagði frá lærimeistaranum Steingrími Arasyni og hans störfum að menntamálum, las eftir hann ljóð og hugvekju sem lesa má á vef deildarinnar.

 

Þá hófst inntaka nýrra félaga sem formaður deildarinnar stjórnaði með aðstoð landssambandsforseta og varaformanni og ritara deildarinnar. Ása Einarsdóttir, Brynja Aðalbergsdóttir, Geirþrúður Fanney Bogadóttir og Þorbjörg Garðarsdóttir voru teknar inn í deildina með viðhöfn samkvæmt reglum samtakanna.

 

Hertha W. Jónsdóttur flutti næst erindi sem hún nefndi Þegar þú brosir af einlægni færir þú hamingju inn í líf annarra! Hún ræddi um mikilvægi þess að leggja rækt við sjálfa sig ekki síst andlega og tengdi það markmiðum og starfi DKG samtakanna. Erindi Herthu má lesa á vef deildarinnar.

 

Ingibjörg Jónasdóttir tók þar næst til máls og ræddi starfið í deildum, á landsvísu og alþjóðavísu og mikilvægi þess að vera virkur þátttakandi. Engin íslensk kona er nú í nefndum á vegum alþjóðasamtakanna og einungi ein íslensk kona í stjórn alþjóðasamtakanna, en það er Sigrún Klara Hannesdóttir.

 

Þá stigu á stokk þrjár ungar konur úr Reykjanesbæ, söngtríóið Konfekt, og flutti fjögur jólalög við frábærar undirtektir og fengu afhentar rósir að söng loknum.

 

Formaður afhenti að lokum Ingibjörgu, Herthu og Gyðu rósir fyrir þeirra þátt í fundinum, sleit síðan formlegum fundi og bauð fundargestum til jólahlaðborðs þar sem boðið var upp á síld, lifrarkæfu, lax, skinku og meðlæti að ógleymdum jólasmákökum húsfreyjunnar sem var svo leyst út með rós og þakklæti í fundarlok.

 

Hulda Björk Þorkelsdóttir
ritaði fundargerð

Fundargerð samþykkt á fundi 13. janúar 2010.


Síðast uppfært 13. jan 2010