Ávarp

Andleg erfðarskrá Steingríms Arasonar til íslensku þjóðarinnar
(Ávarp flutt til fyrrverandi nemenda sinna í útvarpi 1949 (stytt))

Ef til vill er það af því að ég er genginn í barndóm og kominn á áttræðisaldurinn að mig langar til að setja mig á svo háan hest að kenna ykkur ennþá einu sinni.  Og ef mér leyfist það þá er það þetta sem ég vil skilja eftir hjá ykkur:

Reynið þið að temja ykkur að sjá allt með ástaraugum.

Reynið þið að hugsa aðeins ástríkar hugsanir. 

Reynið þið að tala aðeins elskurík orð.

Til þess þarf árvekni, mikla gætni og getu til að setja sig í spor annarra, því að skilja er að fyrirgefa. Takist þetta verða straumhvörf í lífi ykkar: Það verður fullt af hamingju og gleði. Þá verðið þið langtum heilbrigðari því elskan er heilsugjafi. Ástúð er mönnum eðlileg. Guðdómurinn er elskan sjálf og innsti eðlisþáttur okkar er guðlegur. Takist þetta verðið þið líka langtum fallegri, því að ólund, óvild og hræsla gera menn súra á svip og aldraða fyrir ár fram. Með kærleiksríkum huga getum við haldið áfram að vera ung, hve oft sem jörðin hringsólast frá fæðingu okkar.

Þetta er leyndardómur lífsins eins óbrigðull og hann er einfaldur og þúsund sinnum þýðingarmeiri en það sem við sækjumst venjulegast eftir.

 


Síðast uppfært 01. jan 1970