Fundur 19. okt. 2021

Fundargerð Þeta deildar 19. október 2021. Fundurinn var haldinn að Kálfatjörn.

Fundur hófst klukkan 18.

17 konur mættar.

Formaður setti fundinn og kveikti á kertum, vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.

Byrjað var á að skoða Skólasafnið í Norðurkoti undir leiðsögn þeirra Særúnar Jónsdóttur og Þorvaldar Árnasonar frá Minjafélagi Voga og Vatnsleysustrandar. Þau fræddu okkur um skólagöngu barna í Vatnsleysustrandarhreppi og félagskonur gengu um húsið og skoðuðu það.

Þá var gengið yfir í Kálfatjarnarkirkju þar sem Árni Klemens Magnússon, kirkjuvörður og ferðabóndi sagði okkur frá kirkjunni. Félagskonur gengu síðan um kirkjuna og skoðuðu hana, en kirkjan er mjög stór og falleg og greinilegt að mikið hefur verið lagt í hana í upphafi. Kirkjan var vígð árið 1893 og er hún sannkölluð völundarsmíði og ein stærsta sveitakirkja á landinu.  Umhverfi kirkjunnar á sér merka sögu og á hlaðinu við kirkjuna stendur meðal annars hlaðan Skjaldbreið sem hlaðin var snemma á 19. öld.  Kálfatjarnarkirkja er friðuð.

Því næst var farið yfir í safnaðarheimilið þar sem veitingar voru snæddar.

Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir formaður sagði frá því að Bryndís Guðmundsdóttir væri komin í leyfi.

Kristín Helgadóttir gjaldkeri, sagði frá CORNETET einstaklingsstyrknum, en sjóðurinn styrkir konur sem vinna í fræðslustörfum til að sækja ráðstefnur og aðra viðburði er tengjast menntun.

Einnig minnti hún á erindi sem verður á Zoom fimmtudaginn 21. október. Linkur inn á fundinn er á heimasíðu DKG, einnig fengu félagskonur upplýsingar um fundinn sendar í tölvupósti.

Á næstu mánuðum verða erindi á zoom frá ýmsum löndum og er áætlað að erindið frá Íslandi verði í janúar 2022.

Einnig verður á zoom jólaboð þar sem sagt verður frá jólahefðum í hverju landi. Verður þetta auglýst síðar.

 

Eftir dagskránna gafst félagskonum smá tími í spjall sem er líka svo mikilvægt.

 

Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 20.

 

 


Síðast uppfært 21. okt 2021