18. mars 2009
4. fundur vetrarins var haldinn í Biósal Duus-húsa miðvikudaginn 18. mars kl. 20.
Þema fundarins var sagan.
Valgerður Guðmundsdóttir, formaður, setti fund og kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi. Hún kynnti því næsta
DKG samtökin og markmið þeirra fyrir gestum fundarins. Hún minnti einnig á landssambandsþingið sem haldið verður í maí og
Evrópuþingið í Noregi í júní.
Rætt var um næsta fund en breyta þarf fyrirhugaðri dagskrá vetrarins og fellur kynning á ballet niður en í staðinn stendur til að fara saman
í leikhús um miðjan apríl.
Ritari las fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt. Samkvæmt nafnakalli voru 12 félagar mættir auk 3 gesta, þeirra Brynju Aðalbergsdóttur og Kristínar Helgadóttur, sem voru mættar á sinn fyrsta kynningarfund hjá deildinni og Björns G. Björnssonar, leikmynda- og sýningarhönnuðar.
Lára Guðmundsdóttir flutti orð til umhugsunar. Hún lagði út frá frétt í fjölmiðlum í vikunni um mótmæli grunnskólabarna að fá ekki að nota GSM síma í skólanum og ræddi um réttindi og skyldur. Börn og unglingar eru orðnir meðvitaðri um rétt sinn m.a. með þátttöku í nefnum og ráðum í skólum en ekki má gleyma skyldunum sem fylgja réttindum og frelsi.
Sigrún Ásta Jónsdóttir, forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar og Björn G. Björnsson kynntu nýja sýningu sem verið
er að setja upp á vegum Byggðasafnsins í Gryfjunni í Duus-húsum. Sýningin hefur hlotið nafnið Völlurinn og er um áhrif bandaríska
hersins á Keflavíkurflugvelli á mannlífið á Suðurnesjum og störf íbúa á Vellinum. Björn gerði grein fyrir
hugmyndafræðinni sem sýningin byggir á og lýsti hvernig sýning verður til. Umræður og ábendingar fundarkvenna bættu við hugmyndum
í sarpinn fyrir lokahönnun sýningarinnar, en hún verður opnuð 30. mars n.k. kl. 18 og var viðstöddum öllum boðið formlega að vera við
opnunina. Sýningarsalurinn var síðan skoðaður og að því loknu nutum við veitinga yfir spjalli.
Fundi var slitið kl. 21.30.
Hulda Björk Þorkelsdóttir
ritaði fundargerð
Fundargerðin var samþykkt á fundi deildarinnar þann 16. apríl 2009.
Síðast uppfært 04. sep 2010