Jólafundur 30. nóv. 2022

Miðvikudagur 30. nóvember 2022

 

Glimrandi góð mæting var á annan fund vetrar, sem var árlegur jólafundur okkar. Hann var haldinn í Keflavík á heimili Ingu Sifjar ritara Þeta deildar. Dagskráin hófst með því að Lóa Björg formaður, setti fundinn og kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.

Því næst var Valgerður Guðmundsdóttir með orð til umhugsunar þar sem hún ræddi um stöðu íslenskunnar, þróun hennar í gegnum árin og eðlilegar breytingar sem verða á tungumálinu með tímanum. Valgerður las vel valda kafla úr áhugaverðum bókum eins og bókinni Alls konar íslenska eftir Eirík Rögnvaldsson. Bók sem óhætt er að mæla með við allt áhugafólk um íslensku. 

Djasshundar Keflavíkur sem er tríó skipað ungum tónlistarnemum frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, steig næst á stokk og flutti skemmtileg lög af mikilli vandvirkni og innlifun.

Því næst talaði sr. Erla Guðmundsdóttir til okkar vel valin og falleg orð á sinn hnyttna og hlýja hátt.

Lóa Björg fór því næst yfir tilnefningar nýrra félagskvenna þar sem stendur til að fjölga félagskonum í Þeta deild. Send verður út rafræn könnun í byrjun desember og þá geta félagskonur merkt við þær tilnefningar sem þær samþykkja. Þær konur sem hljóta samþykki allra verða boðaðar á kynningarfund í janúar hjá meðlimum stjórnarinnar.

Í lokin snæddu félagskonur ljúffenga jólasmárrétti frá Höllu í Grindavík. Guðbjörg bauð svo upp á heimagerða eftirrétti sem runnu ljúft niður og kunnum við henni okkar bestu þakkir fyrir.

Næsti fundur verður bókafundurinn góði, þann 18. janúar 2023.

 

Fundi var slitið kl. 20.00


Síðast uppfært 09. jan 2023