Guðbjörg Sveinsd.

Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands 2011

Stjórnunarmat í leik- og grunnskólum Reykjanesbæjar

Meistararitgerð til MPA prófs unnin af Guðbjörg M. Sveinsdóttur

Ágrip 

Verkefni þetta fjallar um stjórnunarmat sem framkvæmt var í þremur leikskólum og þremur grunnskólum í Reykjanesbæ. Markmið verkefnisins er að sýna fram á hvernig stjórnendum við þessar stofnanir gengur í sínu starfi og hvernig starfmönnum líkar við stjórnunina. Samhliða stjórnunarmatinu var gerð starfsmannakönnun þar sem könnuð var starfsánægja, starfsandi og hollusta við stofnunina. Ætlunin er að skoða hvort samband sé milli ánægju með stjórnun og ánægðra starfsmanna.

Stjórnunarmatið er fyrst og fremst hugsað sem tæki fyrir stjórnendurna sjálfa til að þeir fái tækifæri til að vita hug sinna starfsmanna og fái upplýsingar um sína styrkleika og veikleika. Til að svo megi verða hefur höfundur útbúið skýrslu fyrir hvern skóla þar sem niðurstöður eru birtar auk þess sem birtar eru samanburðartölur við þátttökuskóla á sama skólastigi og síðan alla þátttökuskólana. Skýrslunni var fylgt eftir með samtali höfundar við skólastjórnendur. Í því samtali var farið yfir niðurstöður hverrar spurningar og rætt um þær. Einnig var farið yfir hugsanlegar leiðir til úrbóta en síðan hvatti höfundur skólastjóra til að taka málið upp með sínu starfsfólki til að leyfa þeim að koma með sínar hugmyndir að umbótum þar sem umbóta er þörf.  

Helstu niðurstöður voru þær að almenn ánægja ríkir með stjórnendur skólanna. Starfsmenn voru mjög ánægðir með almenna stjórnun, skiptingu verkefna milli starfsmanna og deilda og ákvarðanatöku í erfiðum málum. Gott samband var milli stjórnenda og starfsmanna og gátu starfsmenn vel hugsað sér að leita til þeirra ef þeir þyrftu á því að halda. Starfsmenn voru líka sáttir við hvernig tekið var á starfsmannamálum og stjórnendur tóku vel ábendingum starfsmanna og leituðu almennt til þeirra áður en mikilvægar ákvarðanir voru teknar. 

Almennt er upplýsingaflæði gott og starfsfólk var ánægt í sínu starfi. Í ljós kom að stjórnendur minni stofnana virðast vera í betra sambandi við sína starfsmenn heldur en stjórnendur á stærri vinnustöðum. Góður starfsandi ríkir í þessum skólum en þó er ljóst að stjórnendur grunnskólanna þurfa að huga að ýmsum þáttum sem komu ekki eins vel út eins og í leikskólunum og þurfa þeir að vera á varðbergi varðandi ýmsa þætti er móta starsfánægju fólks. Ætla má að samband sé milli ánægju með stjórnun og ánægju starfsmanna. 

Þó svo stjórnunarmatið hafi almennt komið vel út gagnvart stjórnendum og almenn starfsánægja ríki er mælt með því að stjórnendur láti gera annað sambærilegt mat eftir eitt til tvö ár til að fá viðmið og samanburð. Stjórnendur þurfa í millitíðinni að skoða vel niðurstöður og gera áætlun um úrbætur þar sem þeirra er þörf. 




Síðast uppfært 26. apr 2016