Jólafundur 22. nóvember 2017
Fundargerð jólafundar Þeta deildar 22. nóvember 2017. Haldinn á Library bar/bistro, Keflavík
Fundur hófst klukkan 18. 22 konur mættar.
Formaður setti fundinn og kveikti á kertum, vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.
Ritari með nafnakall og las fundargerð síðasta fundar.
Ása Einarsdóttir var með orð til umhugsunar. Ræddi hún um klukkur, líkamsklukkuna, sólarklukkuna og staðarklukkuna. Nóbelsverðlaunahafar í ár í lífeðlis- og læknisfræði eru 3 bandarískir vísindamenn fyrir rannsóknir sínar á líkamsklukkunni. Líkamsklukkan tifar í nánast öllum okkar frumum, hún stjórnar svefni okkar og vöku og hefur mikil áhrif á heilsu okkar. Birtan stillir líkamsklukkuna okkar og er morgunbirtan mikilvægust. Við græðum meira á morgunbirtunni en síðdegisbirtunni. Myrku morgnarnir eru erfiðir, ef klukkunni væri seinkað yrðu myrku morgnarnir mun færri. Rangt stillt staðarklukka hefur áhrif á heilsufar okkar og hefur þessi villa í staðarklukkunni t.d. mun meiri áhrif á unglinga en fullorðna.
Þá var komið að liðnum deildarkonur kynna sig og var það Sóley Halla Þórhallsdóttir sem sagði skemmtilega frá uppruna sínum og æsku, menntun, fjölskyldu og starfi.
Þá var borðaður mjög góður matur:
Aðalréttur: Grillað lambainnlæri, rauðrófur, vorlaukur, smælki, hnetupestó og bernaise sósa
Eftirréttur: Daim créme brulée saltkarmelluís
Angela Marina B. Amaro frá Portúgal og Aleksandra Pitak frá Póllandi sögðu okkur frá jólahefðum í sínum löndum. Var það mjög áhugavert og skemmtilegt.
Að lokum kom Kjartan Már Kjartansson bæjarstóri í Reykjanesbæ og spilaði tvö jólalög á fiðlu og ræddi við okkur um það sem er honum efst í huga þessa dagana en það er sú mikla fólksfjölgun sem er í Reykjanesbæ og hversu hátt hlutfall þar er fólk af erlendu bergi. Við þurfum að gera betur í þessum málaflokki, því þessi þróun er komin til að vera. Einnig sagði hann okkur nokkrar gamansögur.
Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 20
Síðast uppfært 24. nóv 2017