21. feb. 2023

Fundur í Þetadeild – DKG

Þriðjudagur 21. febrúar 2023

 

Fundurinn var haldinn í Reykjavík að þessu sinni á fallegu vetrarkvöldi. Hólmfríður Árnadóttir Þetakona tók á móti okkur í Setbergi, Háskóla Íslands. Hún starfar þar sem verkefnisstjóri fjarnáms og deildarstjóri Kennslumiðstöðvar HÍ. Við byrjum í Setbergi, húsi kennslunnar og eftir stutta kynningu á þessu glæsilega húsi röltum við yfir á Litla torg þar sem fundurinn var haldinn.

Hólmfríður sagði okkur frá því sem hún væri að fást við í sínu starfi. Nú fer fram sérstakt átak í þróun fjarnáms þar sem tækjabúnaður, sérfræðiþekking og stuðningur við kennara verður efldur með hliðsjón

af inngildingu og algildri hönnun. Samhliða verður námsframboð í fjarnámi aukið og það gert sýnilegra.

Erindið var virkilega áhugavert og þökkum við Hólmfríði fyrir erindið sem hún kynnti á sinn skemmtilega hátt.

Lóa Björg kom svo með hvetjandi orð til umhugsunar þar sem hún gerði að umræðuefni sínu ábyrgð okkar sjálfra til að láta drauma okkar rætast. Að fólkið sem nær árangri í lífinu er gjarnan fólkið sem hefur áttað sig á að því að árangur, hamingja og stjórn á eigin lífi kemur frá innri kröftum okkar sjálfra. Það er til  mikils að vinna að taka áhættu í lífinu, en ekki bíða endalaust eftir hinni fullkomnu tímasetningu. Það að vera hugrakkur, taka áhættu og læra eitthvað nýtt og sigrast á eigin ótta er mögnuð tilfinning. Einnig talaði Lóa um gott væri að muna að fagna öllum litlum sigrum í þeim áskorunum sem við tökumst á við.

Í lokin snæddu félagskonur ljúffenga smárrétti frá Tapasbarnum.

 

Næsti fundur er áætlaður 20. mars  2023.

 

Fundi var slitið kl. 20.00


Síðast uppfært 30. mar 2023