16. október 2006
Fundur hjá Þetadeild 16. október 2006
Fyrsti fundur ársins haldinn í Njarðvíkurskóla.
Þórunn Friðriks setti fund og kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi. Hún minnti á afmælishátíðina sem haldin verður fyrstu helgina í maí í tilefni 30 ára afmælis DKG á Íslandi. Þá sagði hún frá styrkjum sem í boði eru á vegum félagsins, bæði innlendum og alþjóðlegum og hvatti konur til að sækja um. Rætt var um að bjóða nýjum konum að ganga í deildina okkar. Hugmyndin er að bjóða þremur nýjum konum inngöngu á þessum vetri. Konur voru beðnar að senda inn skriflega tillögur ásamt stuttri lýsingu. Uppástungur þurfa að koma fyrir næsta fund og þeim síðan boði á bókafundinn í janúar sem kynningarfund.
Orð til umhugsunar flutti að þessu sinni Steinunn Njálsdóttir. Þetta var hennar saga um Þeta-deildina í þuluformi og var áður flutt sem skýrsla formanns á vorþingi 2006. Vakti hún eins og þá mikla lukku.
Aðalgestur fundarins var meðlimur deildarinnar og bæjarstjóri í Garði, Oddný G. Harðardóttir. Hún rifjaði upp fyrir okkur aðdragandann að því að hún varð bæjarstjóri og sagði frá fyrstu mánuðunum í nýju starfi, ekki síst í samanburði við stjórnunarstörf í framhaldsskóla. Ekki var síður skemmtilegt en fróðlegt að heyra frásögn Oddnýjar og spunnust samræður út frá máli hennar.
Eftir kaffi og spjall kynnti Guðríður Helgadóttir næsta fund, sem jafnframt verður jólafundur, haldinn í Sólsetrinu á Hótel Keflavík. Þar ætlar Ægir Sigurðsson að segja okkur frá jarðfræði Suðurnesja.
Kl. 22:00 lukum við síðan ánægjulegum fundi en samkvæmt nafnakalli voru 16 konur mættar.
Bjarnfriður Jónsdóttir
fundarritari
Síðast uppfært 01. jan 1970