Hvernig gerast hlutirnir á akrinum
Hvernig gerast hlutirnir á akrinum: Leikskólakennarar ígrunda og rýna í eigið starf.
M.Ed ritgerð í uppeldis- og
menntunarfræði við Háskóla Íslands árið 2009.
Vægi ritgerðar var 40 einingar.
Markmið rannsóknarinnar var að ígrunda með leikskólakennurum eigið starf og þann fræðilega bakgrunn sem það byggist á.
Tilgangurinn var að öðlast betri skilning og skapa faglega umræðu um starfs- og kennsluaðferðir, hugmyndir og reynslu leikskólakennaranna. Í
rannsókninni var leitast við að svara spurningunum, hvað gerir leikskólakennarinn dags daglega, hvernig vinnur hann með börnum og fullorðnum og hvaða
reynsla, þekking og viðhorf hafa áhrif á starf hans.
Rannsóknaraðferðin var eigindleg og rannsóknarsniðið starfendarannsókn sem hefur verið skilgreind sem einn angi af tilviksrannsókn þar sem kennarar skoða ákveðin tilvik á eigin vinnustað (Allyson Macdonald, 2002). Grundvallarhugmyndafræði starfendarannsókna (e. action research) er talin byggjast á lýðræðislegri hugsun. Aðferðin á rætur sínar að rekja til kenninga fræðimanna sem voru uppi á fyrri hluta tuttugustu aldar, eins og John Dewey. Það voru síðan Alice Miel og Stephen Corey sem tengdu rannsóknaraðferðina við skólaþróun og kennslustofuna (Schmuck, 2006). Fleiri hafa komið á eftir þeim og þróað aðferðina enn frekar.
Rannsóknin var unnin með sex leikskólakennurum í leikskólanum Tjarnarseli í Reykjanesbæ, þar sem undirriðuð er leikskólastjóri. Gagnasöfnun fór fram í janúar og fram í maí ár 2008. Gögnum var safnað með vettvangsathugun þar sem þátttakendunum var fylgt eftir með myndbandsupptökutæki. Einnig var notast við samtalstækni sem byggist á amboðinu Fagleg starfskenning sem Hafdís Guðjónsdóttir (2000, 2004), dósent í kennslu- og sérkennslufræði, við menntavísindasvið Háskóla íslands, þróað með Mary Dalmay sem þá var sérfræðingur við University of Oregon. Amboðið er ætlað að útvíkka samræður frá umræðum um daglegt starf kennaranna í kerfisbundna sköpun faglegrar þekkingar. Jafnframt voru formleg og óformleg viðtöl notuð í rannsókninni. Einstaklingsviðtölin voru hálf opin (e. semi-structered).
Hér á eftir geri ég grein fyrir hluta af niðurstöðum rannsóknarinnar í ljósi rannsóknarspurninganna sem settar voru fram í hér á undan, Meginniðurstöður sýna í fyrsta lagi að leikskólakennararnir nota fjölbreyttar starfs- og kennsluaðferðir sem endurspegla menningu og áhersluþætti leikskólans Tjarnarsels. Merkjanlegur munur á þeim felst aðallega í því hvernig leikskólakennararnir nálgast börnin og viðfangsefni með misjöfnum hætti. Í öðru lagi telja leikskólakennararnir faglega starfskenningu sína eiga rætur í ,,brjóstvitinu sem tekur mið af uppeldi, námi og reynslu þeirra og að hún byggist á starfs- og kennsluaðferðum sem sé þeim lítt meðvituð. Leikskólakennararnir nota heildstæða starfshætti þar sem þeir flétta saman nám, kennslu og umönnun. Hugmyndir og viðhorf leikskólakennaranna til náms og kennslu í leikskóla er tvískipt, annars vegar þroskamiðuð og hins vegar fag- eða námsgreinamiðuð. Annar vegar telja þeir hlutverk sitt að meta hvaða reynsluskilyrði stuðli að menntun barna og skipuleggja umhverfið þannig að þau fái tækifæri, í sjálfsprottnum leik, að upplifa og læra í gegnum athafnir. Hins vegar telja þeir hlutverk sitt að brúa bilið á milli skólastiga og undirbúa elstu börnin fyrir grunnskólagönguna. Ein af leiðunum til þess sé að bjóða þeim upp á lestrar- og skriftarnám. Hægt er að líta svo á að fyrrnefnda hlutverkið tengist leikskólahefðinni en hið síðara sé meðal annars tilkomið vegna stefnu og væntinga ytri aðila, stjórnmálamanna og foreldra.
Þegar rannsóknin var unnin áttu flestir þátttakendurnir að baki langan starfsferil í Tjarnarseli og höfðu tekið virkan þátt í að þróa og móta hugmyndafræði og stefnu leikskólans sem aftur mótar menningu leikskólans. Er þá átt við gildismat, sannfæringu, siði og venjur. Íslenskar sem erlendar rannsóknir hafa sýnt að áhrif menningar á það hvernig við hugsum og vinnum sem kennarar, skapi ákveðin viðmið sem stýra viðbrögðum og hegðun starfsmanna og hafi þannig áhrif á starfsemi skóla/stofnunar (Bruner, 1996; Hoy og Miskel, 2001; Jóhanna Einarsdóttir, 2002; Sergiovanni, 2001). Í rannsókninni mátti sjá víxlverkandi áhrif menningar þar sem hugmyndir, viðhorf og sýn leikskólakennaranna til leikskólastarfsins og barnsins litast af menningu leikskólans og menning leikskólans litast af reynslu, menntun og uppeldi þeirra.
Þegar leikskólakennararnir lýstu starfs- og kennsluaðferðum sínum var ráðandi orðræða þeirra menningarbundin og lýsandi fyrir Aðalnámskrá leikskóla. Lítið gætti af orðræðu grunnskólans eins og hefði mátt ætla vegna áherslu leikskólans á lestrar- og skriftarnám á öllum aldursstigum. Þegar þeir ræddu um inntak leikskólastarfsins og starfshætti notuðu þeir alltaf hugtakið börn en aldrei nemendur og kennsluhugtakið var þeim ekki tamt.
Bruner (1996) sagði viðhorf og sýn kennara mótast af því samfélagi sem þeir lifa og hrærast í og viðhorf til barna litist af því. Leikskólakennarar rannsóknarinnar líta á börnin sem skemmtilegt fólk sem þeir hafa ánægju af að umgangast. Þeir sjá barnið sem sjálfstæðan einstakling með sjálfstæðar skoðanir sem vert er að hlusta á. Pramling (2006) sýndi fram á að þroski og reynsla barna væru háð því hvernig hinn fullorðni hugsar og kemur til móts við barnið og að skilgreining barna á hugtökunum nám og leikur sé sprottin af hugmyndum kennara og foreldra. Í þessu sambandi velti ég því fyrir mér hvort að leikskólakennarar almennt skilgreini þessi tvö hugtök of þröngt þar sem rannsóknir hafa sýnt að börn aðgreina ekki leik og nám eins og fullorðnir gera. Ef þetta er rétt þá skiptir það miklu máli í þessu tilfelli hvernig leikskólakennarar skilgreina nám og kennslu í starfi sínu með leikskólabörnum.
Ég vil benda á að vegna smæðar úrtaksins og aðstæðubundinnar þekkingar er ekki gerð tilraun til að alhæfa út frá rannsókninni en vissulega má draga ákveðinn lærdóm af niðurstöðunum sem leiða fram í dagsljósið sannfæringu og starfshætti leikskólakennaranna.
Með kærri kveðju
Inga María Ingvarsdóttir, leikskólastjóri
Heimildir:
Allyson Macdonald. (2002). Aðferðir í rannsóknum. Sótt 7. júní 2007 af http://rannsokn.khi.is/adferdirallyson/kennslubref1.htm.
Bruner, J. (1996). The culture of education. Cambridge: Harvard University Press.
Hafdís Guðjónsdóttir. (2000). Responsive professional practice: Teachers analyze the
theoretical and ethical dimensions of their work in diverse classrooms. Óbirt doktorsritgerð: University of Oregon.
Hafdís Guðjónsdóttir. (2004). Kennarar ígrunda og rannsaka eigið starf. Tímarit um menntarannsóknir, 1, 2738.
Hoy, W. og Miskel, C. (2001). Educational administration: Theory, research, and practice. (6. útgáfa). Singapore: Mcgraw Hill Higher Education.
Jóhanna Einarsdóttir. (2002, 9. janúar). Frá sannfæringu til starfshátta. Netla Veftímarit um uppeldi og menntun. Sótt 14. nóvember 2006 af http://netla.khi.is/greinar/2002/003.
Pramling, I. (2006). Teaching and learning in preschool and the first years of
elementary school in Sweden. Í J. Einarsdóttir og J. Wagner (Ritstj.), Nordic childhoods and early education (bls. 113). Greenwich, Conn: Information Age Publishing Inc.
Schmuck, R. A. (2006). Practical action research for change (2. útgáfa). Thousand Oaks, CA: Corwin Press.
Sergiovanni. T. J. (2001). The principalship: A reflective practice perspective (4. útgáfa). Needham Heights: Allan & Bacon.
Ritgerðina í heild sinni má nálgast í Skemmunni sjá http://skemman.is/item/view/1946/4095;jsessionid=C3D98B9A43F315888530ECBA6F7E97AF
Síðast uppfært 25. apr 2016